Alls voru skráð 12.574 sumarhús á landinu öllu í árslok 2013, samkvæmt skrám Fasteignamats ríkisins. Þar af voru 6.446 á Suðurlandi eða 51%, langflest í Grímsnes- og Grafningshreppi, 2.642 eða 21% af heildarfjölda, að því er fram kemur á síðu Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga.
Skráðum sumarhúsum á landinu fjölgaði um 5.057 frá árinu 1997 til ársloka 2013, eða sem nemur 67%. Á Suðurlandi fjölgaði skráðum sumarhúsum um 2.483 á tímabilinu. Fjölgunin er mjög misjöfn milli ára en stöðugust á árabilinu 2005 til 2008, 411-519 sumarhús á ári, 4.1%- 4.8%.
Af fimm töluhæstu sveitarfélögunum, í lok árs 2013, eru tvö á Suðurlandi, Grímsnes- og Grafningshreppur, 2.642 sumarhús, eins og fyrr greinir, og Bláskógabyggð með 1.881 sumarhús. Næst þeim kemur Borgarbyggð með 1.303 sumarhús og þar á eftir eru Kjósarhreppur með 544 sumarhús og Skorradalshreppur, en þar eru sumarhúsin 527. Í öllum öðrum sveitarfélögum landsins eru skráð 5.677 sumarhús.
Grímsnes- og Grafningshreppur og Bláskógabyggð bera höfuð og herðar yfir önnur sveitarfélög á Suðurlandi og á landinu öllu með fjölda skráðra sumarhúsa. Saman eru þessi tvö sveitarfélög með 70% af öllum sumarhúsum á Suðurlandi og 36% á landsvísu. Næst þeim á Suðurlandi koma Rangárþingin tvö með samtals 819 sumarhús og Hrunamannahreppur, en þar er 331 sumarhús að finna.
Skipting þessara 12.574 sumarhúsa eftir landshlutum er þessi: Suðurland 6.446, Vesturland 2.605, höfuðborgarsvæðið 1.123, Norðurland eystra 948, Vestfirðir 597, Norðurland vestra 425, Austurland 359 og Reykjanes 71.
The post Sumarhús á landinu hálft þrettánda þúsund appeared first on FRÉTTATÍMINN.