Enn eitt metið var slegið í fjölda erlendra ferðamanna og greiðslukortaveltu þeirra í síðasta mánuði samkvæmt nýjum upplýsingum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar.
Aldrei hafa fleiri ferðamenn komið til landsins og aldrei hefur greiðslukortavelta erlendra ferðamanna verið meiri í einum mánuði. Samkvæmt talningu Ferðamálastofu fóru 180.679 erlendir ferðamenn um Leifsstöð í júlí og var greiðslukortavelta þeirra næstum 24 milljarðar króna.
Fjöldi ferðamanna í júlí var 25% meiri en í júlí fyrir ári og erlend greiðslukortavelta var 31% hærri en í sama mánuði í fyrra. Velta á hvern erlendan ferðamann jókst um 4,8% á milli ára.
Gistiþjónusta er sá liður ferðaþjónustunnar sem ferðamenn vörðu hæstum upphæðum til í mánuðinum, eða 4,7 milljörðum króna. Það er 29% hærri upphæð en í júlí í fyrra. Svipaðri upphæð, eða 4,6 milljarði kr., vörðu erlendir ferðamenn til kaupa á ferðum innanlands hjá ýmsum ferðaskipuleggjendum. Mikill vöxtur hefur verið í þeim geira ferðaþjónustunnar eða sem nemur 77% aukningu frá júlí í fyrra.
The post Kortavelta ferðamanna aldrei meiri appeared first on FRÉTTATÍMINN.