Daginn milli sautjándans og 19. júní, kosningaafmælis kvenna, rann upp ramadan, helgur föstumánuður Islam. Þá ber sanntrúuðum múslimum að neita sér um allt matarkyns frá sólarupprás til sólarlags. Það getur verið raun í löndum Norður-Afríku, fyrir botni Miðjarðarhafsins og á Arabíuskaganum, en það getur verið ærið strembið upp undir heimskautsbaug þar sem nóttin er stutt og dagurinn ógn langur.
Langir auka-klukkutímar
Þar sem daglega bænir múslima miða við sólargang raðast þær undarlega niður hér upp við heimskautsbaug þegar sólin hangir uppi stærstan hluta sólarhringsins. Í dag, þriðja dag ramadam, eru sólsetursbænir klukkan 00:03, næturbænir 01:33 og dögunarbænir strax á eftir eða kl. 1:35 og bænir við sólarupprás 2:55. Þegar það eru níu tímar á milli nætur- og dögunarbæna við miðbaug eru það ekki nema klukkutími og 23 mínútur í Reykjavík í dag. Strangtrúaðir geta því orðið vansvefta daginn eftir — ofan á hungrið.
Stærsti ókosturinn við að halda ramadan á Íslandi er að sólin rís snemma og hangir lengi uppi. Á meðan fastan varir í 12 tíma við miðbaug teygist hún í 21 klukkutíma í Reykjavík. Og þessir níu aukatímar leggjast ofan á tólf tímanna. Þetta eru extra svangir klukkutímar — ekki meðaltals svangir.
Og þar sem ramadan færist fram um ellefu daga hvert ár sjá íslenskir múslimar fram á langa og jafmvel æ lengri föstudaga næstu árin. Það verður ekki fyrr en 2021 (1442 samkvæmt íslömsku almanaki) sem ramadan er allur kominn inn í apríl. 2016 og 2017 verður styðsti dagur ársins líka innan ramadan — 21 langur klukkutími án matar og aðeins þriggja tíma Iftar, hlaðborð kræsinga til að seðja espaða matarlystina.
Reyndar er þetta ekki svona. Þegar trúin breiddist norðar og menn biðu hungraðir þess að sólin settist útbjuggu klerkar Islam til viðmiðunarsól, sem bæði reis og settist á skikkanlegri tíma. Samt eru þeir til sem vilja ekki treysta á sinn Allah hafi heyrt af þessari viðmiðunarsól og stóla því aðeins á þá sömu sem Allah setti á himininn og spámaðurinn hans át og fastaði eftir.
Sjálfsagi og vinarþel
En fyrir utan þetta með langa sólarganginn þá er ekki hægt annað en mæla með því að sem flestir fasti á ramadan. Þeir sem eru undanþegnir samkvæmt bókstafnum eru börn, sjúkir og aldraðir, vanfærar konur og konur með börn á brjósti. Allir þessir mega þó fasta ef þeir treysta sér til. Ef þeir treysta sér illa til föstunnar en eru efins — er sérhlífnin kannski að narra þá — geta þeir tryggt sig með því að gefa fátækum að borða fyrir hverja máltíð sem þeir neyta á föstunni.
En það er öllum hollt að neita sér um eitthvað — eiginlega hvað sem. Fátt af því sem við neytum er svo gott að það sé ekki enn betra að neitað sér um það. Og þegar þið þurfið bara að neita ykkur um það frá sólarupprás til sólarlags; þá verður þetta leikur einn. Og svo þegar sólin sest getið þið bætt ykkur upp það sem þið fóruð á mis við eða verðlaunað ykkur veglega fyrir segluna.
En ramadan er ekki íþrótt. Og enn síður megrun. Og enn nú síður einhverskonar detox. Það er ætlast til að fólk fari sér hægt á ramadan, dragi úr æðibunugangi, beiti sjálft sig aga, þjálfi sjálfstjórn en hugsi um aðra, geri góðverk, sýni vinarþel og sé rausnarlegt í huga og hjarta. Og þegar sólin loksins sest bíður fólk ættingjum sínum og vinum til veislu, situr lengi undir borðum og nýtur þess sem lífið hefur best upp á bjóða; vinskap og góðar veitingar.
Fasta eykur neyslu
Í löndum Íslam eykst öll matsala á meðan á ramadan stendur. Það stafar fyrst og fremst af veisluhöldunum eftir sólsetur, Iftar. Þá borða fjölskylda og vinir saman í miklum fögnuði. En við vitum líka að það er stórhættulegt að fara út í búð svangur. Vanalega komum við þá heim með allt of mikið af mat.
Flestar hátíðarsiðir sem við þekkjum hafa verið settir á legg af kaupmönnum — í það minnsta viðhaldið af þeim eða aukið við. Jólagjafir, jóltré, bolludagsbollur, páskaegg. Og við erum farin að taka upp fleiri siði frá Bandaríkjamönnum sem búa við enn þróaðri (eða úrkynjaðri) neyslumenningu en við; konfekt á Valentínusardegi, kalkúni á þakkargjörð, sælgæti á hrekkjavöku. Í ljósi aukinnar matarverslunar á ramadan ættu Hagar og Norvik ef til vill að hvetja fólk til að fasta oftar.
Sala á magamixtúrum hverskonar eykst mjög yfir ramadan í löndum Íslam. Það bendir til að einhverjir taka föstuna (og veisluna) á hörkunni — ekki síður en hófsemdinni og hógværðinni.
Ef menn vilja taka ramadan með trompi og biðja fimm sinnum á dag þá verða þeir að snúa að Mekka. Og það er ekki eins auðvelt og menn gætu haldið að finna áttina þangað. Það dugar ekki að draga styðstu línu á korti á milli Reykjavíkur og Mekka (svo dæmi sé tekið). Jörðin er nefnilega hnöttótt en ekki tvívíð. Stysta loftlína til Mekka er því næstum því í aust-suðaustur. Ef menn vilja vera nákvæmir geta þeir kropið á Bústaðarveginum við Útvarpshúsið og snúið andlitinu austur eftir veginum í átt að Grímsbæ.
Þeir sem sárvorkenna sér yfir föstuna og eiga erfitt með að bíða eftir að maturinn verði tilbúinn geta keypt sér ramadan-dagatöl. Þau eru næstum alveg eins og jóladagatölin; 29 gluggar sem þið rífið upp, einn á dag. Og á bak við leynist einn sælgætismoli sem rífur mesta hungrið og fleytir ykkur fram að veislunni.
Sætar hnetur og sætt te
Víðast um austan og sunnanvert Miðjarðarhafið tíðkast ekki að snæða ábæti á eftir mat. Þessar þjóðir eru þó öngvir öngvisar þegar kemur að sætindum. Þvert á móti er eiginlega hvergi hægt að finna aðra eins listamenn í meðförum sykurs, hunangs og annarra sætinda. Tyrkneskir eða líbanskir bakarar eru slíkir listamenn að það væri helst að franskir sætindameistarar standist þeim snúning.
Þekktasta afurð sætindaeldhúss þeirra er baklava; hnetur í fílódeigi baðaðar í sírópi. Og það er mjög auðvelt að baka baklövu heima (þökk sé heilögum Pillsbury og tilbúnu fílódeigi).
Takið um 3 bolla af hnetum (sumir nota pistachios eingöngu, aðrir blanda möndlur til helminga og enn aðrir nota valhnetur einar eða í bland við möndlur og pistachios) og setjið í matvinnsluvél. Bætið í hana ½ bolla af sykri og örlitlu af austurlensku kryddi (t.d. teskeið af kanil, ½ teskeið af kardimommum og ¼ teskeið af negul). Myljið hneturnar í vélinni þar til þær eru eins og grófkorna sandur — eða fínkorna möl.
Bræðið eitt smjörstykki við vægan hita. Smyrjið með því eldfast mót og leggið síðan eitt lag af fílódeigi í botninn og upp með hliðunum, smyrjið aftur og leggið nýtt lag yfir. Og svo aftur og aftur; um það bil 6-10 sinnum. Hellið þá hnetumulningnum í fatið og breiðið 6-10 lög af fílódeigi yfir (og alltaf smjör á milli). Smyrjið efsta lagið og setjið fatið inn ísskáp í um klukkustund. Þegar smjörið er orðið hart og hefur fest saman deigið skulið þið skera tígulmynstur í baklövuna, alveg niður í botn. Setjið hana þar næst í 190° heitan ofn í um hálftíma eða þar til hún er orðin gullin og efstu deigblöðin farin að lyftast.
Á meðan baklavan bakast búið þið til einfalt síróp. Setjið 2 bolla af sykri í pott, 1 og ½ bolla af vatni, ½ bolla af hunangi, börk af hálfri sítrónu og slatta af rósavatni (ef þið eigið ekki svoleiðis getið þið sett einn negulnagla í staðinn). Sjóðið skamma stund, fjarlægið börkinn og naglann og hellið hægt en örugglega í raufarnar á baklövunni um leið og þið takið hana úr ofninum.
Gunnar Smári Egilsson
gunnarsmari@frettatiminn.is
The post Gleðilegan ramadan appeared first on FRÉTTATÍMINN.