Manni bjargað úr sjónum, fimm kílómetrum norðan við Húsavík
Um kl. 19:48 barst lögreglunni á Húsavík tilkynning um að maður væri í sjónum í Eyvík, út af Höfðagerðissandi um fimm kílómetrum norðan við Húsavík.
Ekki var á þeirri stundu vitað hvernig maðurinn komst þangað né hvers vegna hann var í sjónum en ljóst að skjótrar aðstoðar yrði þörf. Lögreglumenn fóru á staðinn, ásamt sjúkraliði og björgunarsveitin Garðar, m.a. sjóflokkur sveitarinnar voru kölluð út.
Björgunarbáturinn Jón Kjartansson fór á staðinn, frá Húsavík og 27 mínútum eftir að útkallið barst hafði manninum verið bjargað um borð í Jón Kjartansson, heilum á húfi.
Maðurinn hafði verið á fallhlífarbretti og við leik í öldunum utan við Höfðagerðissand /Eyvíkurfjöru en hafði fallið af brettinu og farið úr axlarlið og gat ekki bjargað sér til lands. Rak manninn því frá landi sökum vinds, en allhvöss suðvestanátt var á staðnum og að verða myrkur en til mannsins sást í ljósum frá landi og vel gekk að leiðbeina áhöfn Jóns Kjartanssonar á staðinn.
Maðurinn var fluttur með björgunarbátnum til Húsavíkur og síðan til aðhlynningar á Heilbrigðissstofnun Norðurlands á Húsavík. Lögreglan á Húsavík vill koma á framfæri kæru þakklæti til viðbragðsaðila fyrir skjót viðbrögð.