Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Ímyndarleikir og kjarasamningar

$
0
0

Ímyndarleikir og kjarasamningar

Eitt af fyrirbærum okkar samtíma eru ímyndarleikir og í kringum þá hefur orðið til heil atvinnugrein, sem snýst um að búa til í huga fólks aðra ímynd af stjórnmálamanni, flokki eða fyrirtækjum en gerðir viðkomandi gefa tilefni til.

Það gætir of mikillar tilhneigingar hjá vinnuveitendum til þess að halda að í þeim kjarasamningum, sem framundan eru, sé hægt að skora einhver mörk með ímyndarleikjum. Hér er meiri alvara á ferð en svo.

Þjóðarsáttarsamningarnir 1990 voru ekki gerðir með ímyndarleikjum. Þeir náðust vegna þess að beggja megin borðs sátu menn með raunveruleg tengsl við grasrótina í samfélaginu.

Þegar hér er komið sögu verða vinnuveitendur að útskýra með hvaða rökum hægt hefur verið að hækka laun æðstu stjórnenda fyrirtækja langt umfram það, sem þeir telja sig geta greitt öðrum launþegum. Og stjórnendur lands og þjóðar verða að útskýra hvernig það sama hefur verið hægt gagnvart þeim sjálfum svo og æðstu embættismönnum og stjórnendum í opinbera kerfinu.  Ímyndarleikir duga ekki sem svör við þeim spurningum.

Er áhugi á og vilji fyrir nýrri þjóðarsátt?

Það er engin spurning um að hinir svonefndu þjóðarsáttarsamningar á vinnumarkaði á árinu 1990 mörkuðu ákveðin þáttaskil í 20 ára sögu óðaverðbólgu á Íslandi, sem þá var bundinn endir á.

Nú,tæplega 30 árum seinna, eru blikur á lofti í kjaramálum og veruleg hætta á að vinnumarkaðurinn springi í loft upp. Magnús L. Sveinsson, fyrrum formaður VR og trúnaðarmaður Sjálfstæðisflokksins til margra áratuga, bendir réttilega á í viðtali í nýju félagsblaði VRstjórnvöld hafi kveikt þann eld.

Þegar fylgzt er með umræðum af hálfu aðila vinnumarkaðar um þessar mundir er það áleitin spurning hvort til staðar sé áhugi á og vilji til að  gera nýja þjóðarsáttarsamninga.

Lykilþáttur í að það tókst árið 1990 var að Einar Oddur Kristjánsson, sem þá var í forystu Vinnuveitendasambands Íslands skildi betur en margir aðrir í þeim samtökum sjónarmið launamanna. Hann stóð nær grasrótinni í samfélaginu.

Er slíkur skilningur til staðar í dag?

Og er hann til staðar hjá stjórnvöldum?

Það á eftir að koma í ljós, en svarið við þessum tveimur spurningum ræður úrslitum um framhaldið.

”Segir Styrmir Gunnarsson, f.v. Ritstjóri Morgunblaðsins.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652