Nettröll fá fangelsisdóma
,,Í fyrradag féll dómur í Finnlandi, sem vakið hefur verulega athygli, bæði þar og annars staðar í Evrópu. Þar voru nettröll dæmd í fangelsi, í skilorðsbundið fangelsi og til sektar vegna eineltis og ofsókna gegn finnskri blaðakonu, sem starfar við finnsku fréttastofuna YLE.
Blaðakonan, Jessikka Aro, hóf árið 2014 að kynna sér, fjalla um og afhjúpa starfsemi rússneskra nettrölla og finnskra hjálparmanna þeirra við að dreifa margvíslegum óhróðri á samfélagsmiðlum, sem augljóslega átti að stuðla að sundurlyndi og óánægju í finnsku samfélagi.
Hún komst m.a. í samband við starfsmenn í eins konar nettrölla verksmiðju í Pétursborg, sem þar störfuðu við að skrifa lygafréttir og frásagnir, sem birtar voru á finnskum samfélagsmiðlum og vafalaust víðar um heim.
Viðbrögðin frá nettrölla verksmiðjunni voru snögg. Jessikka Aro var lögð í einelti og ofsótt hvar sem því var við komið. Heilsufarsupplýsingar um hana voru birtar opinberlega, myndir af henni voru “fótósjoppaðar”, illmægi var beint að henni og hún m.a. kölluð “Nató-njósnari”.Hún fór í frí til Tælands og þar voru teknar af henni myndir að dansa á skemmtistað og birtar með niðrandi ummælum. Hún fékk símhringingar, þar sem skothvellir heyrðust í bakgrunni. Og hún fékk textaskilaboð, sem áttu að vera frá föður hennar, sem dáið hafði tveimur áratugum áður.
Jessikka Aro lét þetta ekki á sig fá heldur hélt áfram starfi sínu við að afhjúpa þessa starfsemi. Svo kom að því að henni var nóg boðið og hún hóf málarekstur.
Ilja Janitskin, stofnandi hægri sinnaðrar vefsíðu, sem styður stjórnvöld í Kreml var í fyrradag dæmdur í 22 mánaða fangelsi fyrir ofsóknir á hendur blaðakonuni, Johan Backman, sem lýst er á vefsíðu þýzku fréttastofunnar Deutsche-Welle, sem málpípu Moskvu, fékk árs fangelsisdóms, skilorðsbundinn. Dómstóllinn sagði þann mann hafa hvatt aðra á netinu til að ofsækja blaðakonuna með þeim hætti að það hafi haft mikil áhrif á lífsgæði hennar. Kona, sem vinnur við vefsíðu Janitskin fékk þriggja mánaða skilorðsbundinn dóm. Þau voru jafnframt dæmd til að greiða Aro 136 þúsund evrur í miskabætur, sem ganga til hennar og tveggja annarra fórnarlamba þessarar starfsemi.
Árásargjörn stjórnvöld hafa komið sér upp nýjum baráttuaðferðum.”
Lýðræðið er í hættu vegna starfsemi nettrölla
Lífsreynsla finnsku blaðakonunnar Jessikku Aro, sem sagt er frá hér á síðunni, lýsir í hnotskurn þeim vanda, sem við er að etja í lýðræðisríkjum Vesturlanda vegna svonefndra “nettrölla” og starfsemi þeirra.
Það er starfsemi af þessu tagi, sem hefur leitt til þeirrar rannsóknar, sem nú stendur yfir í Bandaríkjunum á hugsanlegum afskiptum Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum fyrir tveimur árum.
Það er alveg ljóst að lýðræði vestrænna ríkja er hætta búin af undirróðri af þessu tagi. Ríki sem búa við alræði í einhverri mynd (þar á meðal Rússland) hafa fundið leið til þess að misnota tæknilegar framfarir í mannlegum samskiptum til þess að grafa undan því tjáningafrelsi og skoðanafrelsi, sem einkennir Vesturlönd.
Í gær lýstu bandarískar öryggismálastofnanir yfir áhyggjum vegna þess að stjórnvöld í Rússlandi, Kína og Íran, leitist við að hafa áhrif á úrslit þingkosninganna, sem fram fara vestan hafs snemma í nóvember. Þessar stofnanir segja, skv. fréttum vefsíðunnar The Hill, að þær hafi engar sannanir fyrir beinum tæknilegum afskiptum þessara ríkja af atkvæðagreiðslum en hins vegar fari ekki á milli mála að yfir standi herferð við að dreifa röngum upplýsingum og áróðri erlendra ríkja.
Bandaríska dómsmálaráðuneytið hefur jafnframt ákært rússneska konu fyrir slíka starfsemi, sem sé ætlað að sá fræjum sundurlyndis meðal kjósenda í Bandaríkjunum.
Það er augljóst að lýðræðislegum stjórnarháttum er hætta búin af þessari starfsemi.” Segir Styrmir Gunnarsson, f.v. Ritstjóri Morgunblaðsins.