Veiðiþjófar stunda ólöglegar veiðar á rjúpu
Það runnu tvær grímur á Maríu Gunnarsdóttur, rjúpnaskyttu er hún mætti við upphaf veiðitímabilsins til veiða. Hún lagði af stað löngu fyrir birtingu á fyrsta löglega degi til þess að stunda rjúpnaveiðar eins og lög gera ráð fyrir. Förinni var heitið upp á Geststaðabungu sem er upp af Sveinatungulandi og hóf hún þar veiðar strax í birtingu.
Hún hafði ekki verið lengi við veiðar, þegar að hún gekk fram að dagsgömlum sporum í snjónum eftir fjóhjól og einnig fótspor. Það var auðsjáanlegt að mannaferðir hefðu verið á einkalóð þar sem að óviðkomandi er bannað að vera og það meira að segja degi áður en leyfilegt tímabil hófst og jafnvel hafa þessir menn verið að veiðum fleiri daga á undan en um það er ekki hægt að segja a.m.k. ekki að svo stöddu. En hjólförin lágu um víðfermt svæði og greinilegt að veiðiþjófarnir hafa eytt löngum tíma að ólöglegum rjúpnaveiðum á stóru svæði.
,,Það er asskoti skítt að mæta snemma á fyrsta degi í rjúpu og sjá dagsgömlu fótspor og fjórhjólaför á rjúpnaslóðum” segir María á facebooksíðu sinni og sýnir þar mynd af hjólförunum eftir fjóhjólið.
Að öðru leiti gengu veiðar vel víðast hvar, María náði fimm rjúpum yfir daginn sem að verður að teljast mjög góð veiði, þrátt fyrir að veiðiþjófur/ar hafi spillt svæðinu fyrir henni með því að þjófstarta í veiðinni. Menn og konur voru að fá eitthvað af rjúpu þar sem að heimilt hefur verið að skjóta og algeng veiði hefur verið ein til fimm rjúpa á mann víðast hvar. En kalt hefur verið í veðri um allt land og frost á fjöllum hefur verið algengt frá 5-12 gráður og norðan hvassviðri sumstaðar.
María sem er þrælvön skot- og stangaveiði um árabil, er hér að neðan með eina af þeim fimm rjúpum sem að hún veiddi í gær á fyrsta veiðidegi þeirra sem að fara að lögum. ,,þá vantar mig bara fimm í viðbót í jólamatinn” segir hún af sinni þekktu jákvæðni en hún stundar hófsamar veiðar og nýtur þess að ganga á fjöll með manni sínum, Gunnari Bender, eftir rjúpu en hún hefur einnig stundað veiðar á stærri dýrum t.d. í Afríku.