Loka Reykjanesbraut í mótmælaskyni
Reykjanesbraut mun verða lokað í vikunni í mótmælaskyni við aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar í umferðarmálum. Frá þessu greindi Guðbergur Reynisson einn af forsvarsmönnum Stopp hingað og ekki lengra! hópsins á Facebook-síðu hópsins í dag.
Mótmælin koma í kjölfar banaslyss sem að varð í dag á Reykjanesbrautinni.
Í færslunni, sem rituð er af Guðbergi Reynissyni kemur fram að Reykjanesbrautinni muni verða lokað einu sinni í viku næstu vikurnar og verða tímasetningar ekki gefnar upp fyrr en rétt áður en mótmælin hefjast. Þar kemur einnig fram að Reykjanesbrautinni verði lokað án tilkynninga þar um og óvænt fyrir vegfarendur. Hann greinir einnig frá því að brautinni verði lokað einhvern af næstu sjö dögum.