Nakinn maður handtekinn í Kópavogi
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk tilkynningu um mann sem var að reyna að brjótast inn í hús í Kópavogi er klukkan var tuttugu mínútur gengin í eitt í nótt. Þegar lögregla kom á vettvang var maðurinn orðinn nakinn, og réðist að þeim.
Hann var handtekinn, grunaður um eignaspjöll, hótanir, ofbeldi gegn opinberum starfsmanni og fleira, segir í dagbók lögreglu. Hann var vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins.
Rétt upp úr miðnætti í nótt barst lögreglu tilkynning um mann sem var að berja utan á hús í miðborg Reykjavíkur. Maðurinn datt ofan í gryfju við húsið og komst ekki upp úr henni. Að sögn lögreglu var maðurinn í mjög annarlegu ástandi og var hann því handtekinn og vistaður í fangageymslu sökum ástands.