Neytendasamtökin hafa áhyggjur af samkeppnismálum vegna kaupa á WOW air
Neytendasamtökin hafa lýst því yfir að þau hafa miklar áhyggjur af samkeppnismálum vegna kaupa Icelandair á WOW air.
Eins og kunnugt er, hafa þessi tvö félög verið í harðri samkeppni um verð. Þar sem að WOW air bauð yfirleitt miklu betri verð en hafa áður þekkst á Íslandi og var fólk ánægt að losna við einokunina sem að virtist ríkja um árabil og fagnaði breytingunum. Félögin eru í dag t.d. að fljúga vélum sínum u.þ.b. 40% á sömu staði.
Nú hefur Icelandair keypt keppinaut sinn og varla fer félagið í samkeppni við sjálft sig en þó hafa verið gefnar yfirlýsingar um að reksturinn verði óbreyttur fyrst um sinn. Engin trygging er fyrir neytendur að það breytist ekki eftir að Samkeppniseftirlitið er búið að setja stimpilinn sinn á kaupin.
Stjórn Neytendasamtakanna hefur samþykkt svohljóðandi ályktun:
Neytendasamtökin beina þeim tilmælum til Samkeppniseftirlitsins að í umfjöllun um hugsanlega sameiningu Wow og Icelandair verði fyrst og fremst tekið mið af hagsmunum neytenda. Tryggja verði virka samkeppni í flugsamgöngum neytendum til hagsbóta.
Almenningur í landinu á mikið undir því að virk samkeppni ríki í flugsamgöngum. Þá beinir stjórn Neytendasamtakanna þeim tilmælum til stjórnar Icelandair Group að velta ekki kostnaði á herðar neytenda með hækkun farmiðaverðs. Neytendasamtökin munu fylgjast náið með framvindu þessa máls.