Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

„Hey negri, ég skeit á þig áðan“

$
0
0

Aldrei hefði mér dottið til hugar að einhver ætti eftir að reyna að draga upp mynd af mér sem þjóðernissinna en það má skilja af orðum Sabine Leskopf í nýlegri stöðuuppfærslu hennar,sem má sjá hér: 

Eins og þið flest öll sennilega vitið þá er ég með dekkra litarhaft en meginþorri landsmanna þar sem annað foreldri mitt er frá Tansaníu í Afríku. Sökum þess hefur maður þurft að heyra ýmislegt misskemmtilegt en það sem stendur sennilega upp úr er þegar það var kallað á eftir mér „hey negri, ég skeit á þig áðan“, allt út af því að ég er skilgreind sem svört, dökk eða brún og við búum við mjög skaðlega aldagamla hugmyndafræði um ólíka „kynþætti“ (ég set hugtakið kynþáttur í gæsalappir til að undirstrika að það er enginn líffræðilegur sannleikur fólginn í því að tala um ólíka kynþætti mannkyns, það er svo lítið af erðamengingu okkar sem stjórnar útlitslegum einkennum.

Sú flokkun gengur því ekki upp líffræðilega en hugmyndafræðin á bakvið kynþáttahugtakið hefur verið notuð til aðgreiningar og jaðarsetningar í gegnum tíðina. Kynþáttahugtakið er því félagsleg smíð frekar en líffræðilegur sannleikur).

Skaðsemi þjóðernissinnaðrar hugmyndafræði birtist okkur víða í dag, bæði hér á landi og erlendis, þar sem hún hefur í mörgum tilfellum leitt til dauðsfalla. Orðræðan sem byggir á hugmyndafræðinni „við“ á móti „hinum“ er svo hættuleg og birtist okkur. m.a. í tali um að loka landamærum og byggja upp veggi.

Á tímum þar sem maður vonaðist til þess að við værum að ná lengra í þessarri baráttu virðist útlendingahatur, mismunun og kynþáttafordómar fara sívaxandi. Það sló mig þegar mamma mín sagði mér frá því að hún væri ekkert allt of sátt við hugmyndina um að við færum einn daginn til Bandaríkjanna eins og staðan væri þar núna, þá var hún að vísa til lögregluofbeldisins þar í landi gagnvart svörtu fólki.

Hún sagði að ef við skyldum gera okkur ferð þangað, þá myndi hún sennilega biðja mig um að vera ekki með krullurnar sýnilegar, til að reyna að draga úr því að blandaði uppruni minn sæist. Eitthvað sem ég hef aldrei þurft að hafa áhyggjur af, þar sem það eina sem ég hef áhyggjur af er hvort að einhver verði mögulega með leiðindi við mig einhversstaðar, með spurningum, athugasemdum og óviðeigandi snertingum.

Þegar sósíalistar sýndu mér það gríðarlega mikla traust að vera oddviti flokksins, viðurkenni ég alveg að ég hugsaði hvort að raddir færu að koma fram þess efnis í samfélaginu almennt að svört eða dökk kona ætti ekki að vera þarna. Að einhverjar raddir kynþáttafordóma færu að koma fram um að ég ætti ekki skilið þetta sæti og ég var farin að ímynda mér hvað fólk myndi segja, að ég ætti bara að fara aftur heim til mín, að ég ætti ekkert erindi þarna, að fólk myndi þykjast ekki skilja mig.

Alveg frá því ég var lítil hefur einhver minnt mig á að ég væri talin öðruvísi sökum litarhafts, sökum þess að við búum við einsleita þjóðarímynd. Það er mjög útilokandi að teljast ekki vera hluti af þjóðinni sökum þess að annað foreldri þitt er erlent og þú lítur aðeins öðruvísi út en flestir hinir. Það er mjög lýjandi að þurfa sífellt að útskýra fyrir fólki af hverju ég lít út eins og ég lít út og að þurfa að sannfæra fólk um að ég skilji íslensku.

Ég hef verið opinská með upplifun mína sem hefur verið mjög mótandi, ég hef komið fram á ýmsum stöðum og talað um þessa upplifun og báðar ritgerðir mínar á háskólastiginu fjölluðu um rasisma og skaðsemi þjóðernishyggju og hversu útilokandi sú hugmyndafræði er. Í BA ritgerðinni minni skrifaði ég um hugtakið negri og í MA ritgerðinni minni talaði ég við fimmtán Íslendinga af blönduðum uppruna þar sem við ræddum kynþáttafordóma, það að tilheyra, rasísk hugtök og staðalmyndir svo fátt eitt sé nefnt.

Á síðasta borgarstjórnarfundi var samþykkt fjölmenningarráðs tekin fyrir en þar er fjallað um markmið og hlutverk ráðsins. Fjölmenningarráð sinnir gríðarlega mikilvægu hlutverki og það er mjög jákvætt og nauðsynlegt að það sé verið að efla ráðið og gefa því meira vægi innan Reykjavíkurborgar en áður var. Áður en samþykkt Fjölmenningarráðs var borin upp á borgarstjórnarfundi, var hún lögð fram í forsætisnefnd, þar sem ég ásamt nokkrum öðrum borgarfulltrúum sitjum. Þar setti ég fram nokkrar athugasemdir við orðalag og við fjölluðum aðeins um það innan nefndarinnar.

Orðalaginu var síðan breytt á nokkrum stöðum, með það að leiðarljósi að ekkert í orðalaginu væri hægt að skilja sem útilokandi. Þegar ég las síðan yfir samþykktina fyrir borgarstjórnarfund þá sá ég að á einum staðnum í samþykktinni stóð „á milli Íslendinga og innflytjenda“.

Að sjálfsögðu eigum við að stuðla að samtali á milli Íslendinga og innflytjenda en á borgarstjórnarfundi vildi ég koma á framfæri vangaveltum mínum vegna þessa orðalags. Ég fór því upp í pontu þar sem ég skýri frá því að mér finnist samþykktin mjög jákvæð en að ég væri að velta fyrir mér þessu orðalagi, að með því að tala um Íslendinga sem einn hóp og innflytjenda sem annan hóp, gætu sumir kannski skilið það sem svo að það væri verið að stilla Íslendingum upp andstætt innflytjendum. Það er það sem mig langaði að koma á framfæri, að enginn gæti skilið það sem svo að innflytjendur gætu aldrei verið skilgreindir sem Íslendingar.

Þetta byggi ég á samtali mínu við innflytjendur sem hafa greint frá því hversu útilokandi það er að vera alltaf skilgreindur sem innflytjandi en ekki viðurkenndur sem Íslendingur, sem hluti af samfélaginu. Mér fannst þetta vera eitthvað sem hafi þurft að skoða betur og því sat ég hjá í atkvæðagreiðslu um samþykktina. Ég gerði það með tilliti til fyrrnefndra athugasemda og var þar með að vonast til þess að hægt væri að líta aftur yfir skjalið með tilliti til þessa sjónarmiðs. Þar er ég með engu móti að reyna að vinna gegn mikilvægu starfi fjölmenningarráðs eins og sumir hafa ákveðið að stilla upp. Ég myndi aldrei gera neitt til að koma í veg fyrir það að raddir fólks með erlendan bakgrunn fái hljómgrunn.

Auðvitað erum við kannski ekki öll með sama skilning á orðum eða hvað teljist viðeigandi og hvað ekki og þá eigum við að ræða það. En að reyna að draga upp mynd af mér, manneskju sem er með afrískan bakgrunn, sem hefur upplifað kynþáttafordóma og greint frá því opinberlega, sem þjóðernissinnuðum sósíalista, er sennilega með því ljótasta sem ég hef þurft að lesa um sjálfa mig.

Hér er hægt að sjá færsluna:


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652