Gestum á Matarhátíð Búrsins í Hörpu um helgina býðst að bragða á diskósúpu sem elduð er úr hráefni sem átti að henda. Matarsóun er eitt af stóru umhverfismálunum sem þarf að taka á, að mati Dóru Svavarsdóttur matreiðslumanns sem eldaði súpuna ásamt góðum hópi fólks.
„Þetta snýst um það að beina athyglinni að því hvað erum að henda fáránlega miklu af mat í ruslið, bæði framleiðendur, heildsalar, smásalar og svo neytendur. Okkur tókst að sanka saman hráefni frá ýmsum aðilum sem einhverra hluta vegna er ekki talið söluhæft og ætlum að búa til súpu fyrir 16 þúsund manns,“ segir Dóra Svavarsdóttir matreiðslumaður.
Dóra fór fyrir hópi fólks í Slow Food samtökunum og fleiri áhugasamra í vikunni við súpugerð. Diskósúpa er alþjóðlegt fyrirbæri og hefur áður verið framkvæmt hér á landi en ekki af þessari stærðargráðu. „Við erum búin að vera að skræla og skera og þetta verður ljómandi góð súpa. Þetta verður einhvers konar tómatlöguð rótargrænmetissúpa, matarmikil og fín,“ segir Dóra.
„Þetta hráefni sem við fengum er í góðu lagi, ástæðan fyrir því að það er ekki selt getur verið allt frá því að pakkningar séu skemmdar yfir í að gulrót hafi verið orðin lin. Í sumum tilvikum er bara um offramleiðslu að ræða og þá er hent í tunnuna. Okkur tókst alla vega að safna nægu hráefni – þetta verður súpa úr rusli fyrir 16 þúsund manns,“ segir hún og hlær.
En þótt létt sé yfir Dóru er alvarlegur undirtónn í þessu verkefni. „Matarsóun er eitt af stóru umhverfismálunum núna. Þetta er ekki bara spurning um peningana, við erum að auka svo álagið á lífríkið – á allt kerfið með því að henda svona miklum mat. Við viljum koma þessum boðskap á framfæri og það viljum við gera á jákvæðan hátt þarna í Hörpu um helgina. Súpa fyrir 16 þúsund manns og það átti að henda hráefninu – hversu galið er það?“
The post Diskósúpa fyrir 16 þúsund manns appeared first on FRÉTTATÍMINN.