Fúsi, kvikmynd Dags Kára Péturssonar, er ein fimm mynda sem tilnefndar eru til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs í ár. Verðlaunin verða afhent hinn 27. október í Hörpu og hlýtur sigurvegarinn um 7,5 milljónir íslenskra króna að launum. Í fyrra bar kvikmynd Benedikts Erlingssonar, Hross í oss, sigur úr býtum.
Myndirnar fimm sem hljóta tilnefningu eru: Stille hjerte (Danmörk): Leikstjóri Bille August, handritshöfundur Christian Torpe og framleiðandi Jesper Morthorst, He ovat paenneet (Þau hafa flúið) (Finnland): Leikstjóri J-P Valkeapää, handritshöfundur Pilvi Peltola og framleiðandi Aleksi Bardy, Fúsi (Ísland): Leikstjóri/handritshöfundur Dagur Kári Pétursson og framleiðendur Baltasar Kormákur og Agnes Johansen, Mot naturen (Noregur): Leikstjóri/handritshöfundur Ole Giæver og framleiðandi Maria Ekerhovd, Gentlemen (Svíþjóð): Leikstjóri Mikael Marcimain, handritshöfundur Klas Östergren og framleiðandi Fredrik Heinig.
Í íslensku dómnefndinni sátu Kristín Jóhannesdóttir, Björn Ægir Norðfjörð og Auður Ava Ólafsdóttir. Þau rökstyðja val sitt með eftirfarandi orðum: „Fúsi eftir Dag Kára Pétursson er hjartnæm þroskasaga af ljúfum risa. Hér er á ferðinni mannleg saga þar sem innri átökum og óhefðbundnum þokka er lýst með meistaralegum blæbrigðum. Táknrænt samspil hins stóra og þess smáa miðlar algildum stefjum á borð við gæsku, gjafmildi og mannlega reisn.“
Úrslit verða tilkynnt opinberlega þriðjudaginn 27. október í Hörpu og verður það í 12. sinn sem verðlaunin verða veitt. Eins og fram hefur komið hlaut kvikmyndin Hross í oss verðlaunin í fyrra. Árið áður vann mynd Thomasar Vinterberg, Jagten. Fyrri ár unnu myndirnar Play (2012), Beyond (2011), Submarino (2010), Antichrist (2009), You, The Living (2008), The Art of Crying (2007), Zozo (2006), Manslaughter (2005) and The Man Without A Past (2002).
The post Fúsi fær tilnefningu til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs appeared first on FRÉTTATÍMINN.