Marta Rún Ársælsdóttir og Arnór Eyvar Ólafsson festu kaup á fallegri íbúð í Bryggjuhverfinu í sumar. Marta er mikil áhugamanneskja um mat og eyðir miklum tíma í eldhúsinu. Með dyggri aðstoð frá afa sínum gerði hún draumaeldhúsið að veruleika.
Marta Rún starfar í húsgagnaversluninni Norr11. „Þar næ ég að tengja saman mín tvö helstu áhugamál, hönnun og mat. Í frítíma mínum eyði ég svo óendanlegum tíma í að lesa uppskriftabækur, prófa nýjar uppskriftir og blogga um þær.“ Marta er einn af meðlimum bloggsíðunnar Femme.is þar sem hver bloggari hefur sitt sérsvið og er Marta iðin við að setja inn uppskriftir af girnilegum réttum og kokteilum.
Handlaginn afi
Marta og Arnór keyptu íbúðina í sumar og fluttu inn fyrir tveimur mánuðum. „Fyrir mér er eldhúsið algjört aðalatriði og því fannst mér skipta miklu máli að taka það í gegn. Við höfðum hins vegar ekki alveg ráð á að skipta út eldhúsinnréttingunni svo við leituðum að ódýrari lausnum,“ segir Marta. Hún tók því til sinna mála og fór með einn skáp úr innréttingunni í Slippfélagið og fékk ráðgjöf frá varðandi málningu sem hentaði viðnum. Í framkvæmdunum fékk hún dygga aðstoð frá afa sínum, Gesti Guðnasyni. „Málningarvinnan var mikið þolinmæðisverk og áttum við afi dýrmætar samverustundir á meðan þessu stóð. Á milli umferða drukkum við svo ófáa kaffibolla.“ Marta hefur nú komið sér upp sérstökum kaffibar við gluggann. „Kaffivélin er án efa mest notaða eldhústækið.“
Veggfóður frá Hollandi
Marta hafði ákveðnar hugmyndir um hvernig hún vildi hafa vegginn fyrir neðan efri skápana. „Ég fæ mikinn innblástur á Pinterest og veggfóðrið fann ég þar. Mig langaði að flísaleggja vegginn, en það er bæði dýrt og óhentugt ef mig langar svo að breyta aftur. Ég fann hollenska netverslun á Pinterest, Behangfabriek, sem sendir ekki til Íslands, en ég ákvað að senda þeim tölvupóst og þeir bættu bara Íslandi við listann hjá sér.“ Veggfóðrið er hannað fyrir eldhús og á að þola hita og fituslettur. Það kemur sér vel því Marta er dugleg að halda matarboð. Í þeim koma barstólarnir við eyjuna einnig að góðu gagni. „Þegar vinkonurnar eru mættar geta þær tyllt sér við eyjuna og sötrað rauðvín á meðan ég klára að elda,“ segir matarbloggarinn Marta Rún.

Marta og Arnór máluðu innréttinguna með aðstoð afa Mörtu og settu veggfóður á milli. Ljósin eru frá Lýsingu og hönnun og perurnar eru frá House Doctor og keyptar í Fakó. Við gluggann hefur Marta sett upp fallegan kaffibar. Mynd/Hari

Veggfóðrið er úr hollensku netversluninni Behangfabriek sem sendir nú til Íslands, þökk sé Mörtu. Mynd/Hari.
The post Fyrir og eftir: Matarbloggarinn Marta Rún gerir upp eldhús í Bryggjuhverfinu appeared first on FRÉTTATÍMINN.