Anna Linda Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur hjá Heyrnartækni í Glæsibæ, segir að heyrnarskerðing geti haft margvísleg áhrif á líðan og heilsu og því er mikilvægt að hugsa um hana sem hluta af almennri heilsu. „Því miður bíða margir of lengi með að leita sér aðstoðar og stundum tekur það fólk nokkur ár að gera eitthvað í málunum. Að fá sér heyrnartæki er vissulega stórt skref en það getur skilað viðkomandi miklum ávinningi.“ Rannsóknir hafa sýnt að notkun heyrnartækja sem meðferð við heyrnarskerðingu hefur jákvæð áhrif á lífsgæði. „Heyrnartæki hjálpa þér bæði að heyra betur og líða betur. Bestu heyrnartækin eru þau sem skila þér skýru og eðlilegu hljóði og tryggja að þú sért ekki þreytt eða þreyttur í lok dags,“ segir Anna Linda.
Að geta í eyðurnar
Fæstir leiða hugann að því að heyrn er ekki eitthvað sem á sér eingöngu stað í eyrunum. Það sem gerist á milli þeirra, í heyrnarstöð heilans er jafn mikilvægt. „Þar verður hljóð að upplýsingum sem hefur einhverja merkingu fyrir okkur. Þegar heyrn er skert, hvort sem það er vegna aldurstengdra breytinga í innra eyra, hávaðaskemmda eða vandamála í miðeyra er hljóðið sem berst frá eyrunum til heyrnarstöðvarinnar ekki nægilega skýrt og heilinn reynir að fylla upp í eyðurnar. Sumar setningar er auðvelt að misskilja en vissulega ná sumir að geta í eyðurnar en það getur verið erfitt og þreytandi til lengdar að taka þátt í samræðum með skerta heyrn,“ segir Anna Linda. Að hennar sögn eru ekki margir sem átta sig á því hversu mikla orku það tekur frá fólki að þurfa stöðugt að einbeita sér að því að heyra. „Sumir sem koma til okkar hafa þó bara gefist upp á að reyna að heyra í krefjandi aðstæðum eins og fjölmenni og klið og segjast einfaldlega ekki nenna að hlusta þegar aðstæður eru erfiðar eða hætta jafnvel að taka þátt.“

Ný tækni sem auðveldar heilanum að skilja hljóð
Nýjustu heyrnartæki frá Oticon búa yfir einstakri tækni sem kallast BrainHearingTM. Þessi tækni gerir það að verkum að mikilvægar upplýsingar eins og smáatriði í talmáli berast skýrar til heyrnarstöðvarinnar þannig að heilinn þarf ekki að eyða eins mikilli orku í að fylla upp í götin. Tæknin gerir heyrnartækjunum kleift að vinna saman sem eitt kerfi til að hjálpa notandanum að staðsetja hljóð og draga úr áreynslu sem fylgir því að hlusta á samtöl. BrainHearingTM tæknin sér um að koma hljóðinu eins hreinu og skýru og mögulegt er til þess að auðvelda heilanum að skilja það.
Frí heyrnarmæling og heyrnartæki til prufu í vikutíma
Hjá Heyrnartækni er hægt að fá heyrnartæki til prufu í vikutíma en það getur verið mikilvægt fyrir þá sem eru að fá sér heyrnartæki í fyrsta sinn að vera með þau í einhvern tíma áður en tækin eru keypt. „Vikuprófun getur gefið þér nokkuð góða mynd af því hvernig þér líður með tækin, bæði hvernig það er að vera með þau í eyrunum og eins hvernig þau hljóma. Fyrsta skrefið er að bóka tíma í heyrnarmælingu til að sjá hvort tímabært sé að fara að nota heyrnartæki,“ segir Anna Linda. Skoðun og heyrnarmæling tekur um 40 mínútur og að henni lokinni er farið yfir niðurstöðu mælingarinnar og boðið upp á heyrnartækjaráðgjöf. „Það getur verið gott að fá maka, ættingja eða vin með sér í þetta ferli, sérstaklega í ráðgjöfina, en þar eru veittar mikilvægar upplýsingar sem stundum getur verið betra fyrir tvo að muna.”
Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Heyrnartækni.
Unnið í samstarfi við Heyrnartækni
The post Er kominn tími til að nota heyrnartæki? appeared first on Fréttatíminn.