Séraðgerða- og sprengjueyðingarsveit Landhelgisgæslunnar var kölluð út síðdegis á sunnudag, að beiðni lögreglunnar á Suðurnesjum, vegna handsprengju sem fannst á svokölluðu Patterson svæði nálægt Ásbrú.
Tveir liðsmenn sprengjueyðingarsveitarinnar fóru á staðinn og í ljós kom að um var að ræða virka handsprengju á þekktu sprengjuæfingasvæði gamla varnarliðsins. Talið er að handsprengjan hafi verið í jörðu og komið upp á yfirborðið í jarðvegslyftingum. Vel gekk að eyða sprengjunni.
Umrætt svæði hefur margoft verið leitað og hreinsað en endrum og sinnum finnast þar sprengjur á borð við þessa sem koma upp á yfirborðið.
Landhelgisgæslan leggur því áherslu á að fólk gæti varúðar á svæðinu. Leiki grunur á að um sprengju sé að ræða er mikilvægt að láta lögreglu vita.
Handsprengjan sem fannst var virk.
Gígurinn sem myndaðist að sprengingu lokinni.
The post Eyddu virkri handsprengju nálægt Ásbrú appeared first on Fréttatíminn.