Tíu dagar eru svolítið langur tími. Svona hlutir ættu ekki að taka lengri tíma en 1-2 daga,“ segir Kristófer Már Maronsson, framkvæmdastjóri Stúdentaráðs.
Óánægju hefur gætt meðal námsmanna vegna afhendingu á námsmannakortum Strætó. Í skilmálum áskilur fyrirtækið sér allt að tíu virka daga til að afhenda kort eftir að það hefur verið pantað. Á meðan námsmenn bíða eftir að fá kortið þurfa þeir að borga fargjald ætli þeir að nota Strætó, í stað þess að geta framvísað kvittun sem sannar að þeir hafi greitt fyrir kort. Ef það tekur heila tíu daga að fá kort afhent, og miðað er við tvær strætóferðir á dag, getur kostnaður námsmanns numið allt að átta þúsund krónum. Sjálft námsmannakortið kostar 46.700 krónur og gildir í heilt ár.
„Stúdentaráð hefur ekki fjallað um þetta og ég er að heyra af þessu sjálfur í fyrsta skipti en mér sýnist að þetta sé kerfi sem hægt sé að bæta auðveldlega. Það eru margir nemendur í Háskólanum sem treysta á Strætó og það er ekki ódýrt að vera háskólanemi. Besta leiðin til að leysa þetta væri auðvitað að vera með þessi kort í símunum, tæknin er svo góð í dag,“ segir Kristófer Már.
Júlía Þorvaldsdóttir, sviðsstjóri farþegaþjónustusviðs hjá Strætó, segir að almennt sé afhendingartími námsmannakorta 2-3 dagar en á haustin, þegar flestir endurnýja kort sín, sé hann stundum lengri.
„Þetta eru þungar tvær vikur þegar allir eru að endurnýja. Þetta eru eitthvað um átta þúsund nemakort og eins og alltaf getur eitthvað misfarist. Við reynum að bregðast við því fljótt og vel.“
Af hverju geta námsmenn ekki bara sýnt kvittun þar til þeir fá kortin afhent?
„Það var reynt en gekk því miður ekki upp. Það skapaði úlfúð í vögnunum, það var mikið af fölsunum og vonlaust að halda utan um það.
Við hvetjum fólk til að sýna fyrirhyggjusemi og panta kortin tímanlega. Það er hægt að panta þau með dagsetningu fram í tímann þannig að fólk sé örugglega búið að fá kortin þegar þau eiga að taka gildi.“
Júlía kveðst ekki geta svarað því hvenær strætókort verði fáanleg í ágætu appi Strætós. „Næsti fasi í appinu verða áskriftarkort og ég vona að námsmannakortin verði þar með. En ég get ekki svarað því hvenær það verður nákvæmlega.“
The post Námsmenn óánægðir með afhendingartíma strætókorta appeared first on Fréttatíminn.