Gömlum vinnufélögum af Dagblaðinu, sem átti sinn líftíma frá því í september 1975 fram í nóvember 1981 þegar það sameinaðist Vísi, var smalað saman í síðustu viku í tilefni þess að 40 ár voru liðin frá stofnun blaðsins. Þangað mætti ég og hitti gamla jaxla enda hóf ég mína blaðamennsku á Dagblaðinu hálfu öðru ári eftir að það hóf göngu sína, á páskavakt á því herrans ári 1977. Þar voru fyrir á fleti margar stjörnur undir stjórn nafna míns Kristjánssonar ritstjóra, meðal annarra Jón Birgir Pétursson fréttastjóri, Haukur Helgason aðstoðarritstjóri, Bragi Sigurðsson lögfræðingur og lífskúnstner, Gissur Sigurðsson sem staðið hefur fréttamannavaktina síðan og segir nú fréttir á Bylgjunni, Helgi Pétursson sem þá, eins og nú, átti sér hliðarbúgrein samhliða blaðamennskunni í Ríó-tríóinu, Ómar Valdimarsson, Atli Steinarsson og kona hans Anna Bjarnason sem sá um neytendamálin. Hallur Símonarson, landskunnur bridgespilari, sá um íþróttirnar og sonur hans, Hallur Hallson, var enn fremur í fréttaskrifum sem og Ásgeir Tómasson, nú fréttamaður á Ríkisútvarpinu. Nokkru síðar kom Elín Albertsdóttir til starfa en hún er nú á Fréttablaðinu. Þau Ásgeir rugluðu saman reitum og eignuðust börn og buru. Ásgeir Hannes Eiríksson var auglýsingamegin, altmúlígmann sem stýrði sjóralli hraðbáta umhverfis landið á vegum blaðsins sumar eftir sumar með Jóhannesi Reykdal útlitshönnuði og fleiri góðum mönnum.
Svolítið var þetta karllægt, eins og tíðkaðist á þessum árum, því auk Önnu var Erna V. Ingólfsdóttir í blaðamannahópunum og með mér byrjaði Dóra Stefánsdóttir, sem síðar sneri sér að öðru. Ljósmyndararnir voru gamalreyndir, Bjarnleifur Bjarnleifsson og Sveinn Þormóðsson, auk þess sem Ragnar Th. Sigurðsson, þá bráðungur rétt eins og undirritaður, sinnti myndatökum um hríð. Eftir að Ragnar hætti fréttaatinu sneri hann sér að listrænni þáttum ljósmyndunar. Eftir hann liggja falleg verk en hann var verðskuldað útnefndur heiðurslistamaður Kópavogs í síðustu viku.
Sveinn R. Eyjólfsson framkvæmdastýrði svo heila galleríinu með skrifstofufólki sínu, Hann hafði áður gert góða hluti á Vísi en Jónas Kristjánsson og hann stofnuðu Dagblaðið þegar súrnaði millum Jónasar og eigenda Vísis. Allt gengur lífið þó í hringi og Dagblaðið og Vísir sameinuðust í DV haustið 1981, þar sem Ellert B. Schram ritstjóri og Hörður Einarsson framkvæmdastjóri mættu með sitt lið í eina stórkostlega sinfóníu í Síðumúlanum undir merkjum hins sameinaða blaðs, en blöðin tvö höfðu áður keppt harkalega á síðdegismarkaði. Jónas og Ellert urðu ritstjórar og Sveinn og Hörður framkvæmdastjórar og fór vel á með þeim fjórmenningum.
Það verður að játast að ég kunni ekki mikið fyrir mér þegar ég mætti á páskavaktina á Dagblaðinu forðum daga. Þröngt var setið á ritstjórninni þar sem menn lömdu með hrömmunum á lífsreyndar skólaritvélar, órafknúnar. Þær þoldu ýmislegt og veitti ekki af. Eini blaðamaðurinn sem naut þeirra forréttinda að vinna rafknúna ritvél var Anna heitin Bjarnason.
Ég kunni varla með ritvél að fara, hafði svindlað í gagnfræðaskólanum í vélritun og komist með einhverjum hætti í gegnum mennta- og háskóla án þess að læra á græjuna, að öðru leyti en því að ég hafði slysast til að læra rétta fingrasetningu. Mín ágæta eiginkona, sem var með vélritunina á tæru, bjargaði mér til dæmis alveg þegar kom að skilum BA-ritgerðar skömmu áður en ég hóf störf á Dagblaðinu. Á þá góðu konu gat ég hins vegar ekki stólað á nýja vinnustaðnum og varð því að taka mig taki. Það hafðist og þar nýttist blessuð fingrasetningin. Margir af hinum reyndu félögum mínum höfðu tamið sér annan hátt. Sumir notuðu aðeins vísifingur beggja handa og Haukur Helgason hafði sinn sérstaka stíl, notaði bara aðra höndina. Með hinni reykti hann.
Reykingar á stassjóninni voru kapítuli út af fyrir sig. Mér er óhætt að segja að reykt hafi verið nánast á hverju borði – og það var borð við borð. Öskubakkinn við hliðina á ritvél hvers og eins var mikilvægasta húsgagnið. Engum datt í hug að standa upp til að reykja og því síður að fara út fyrir hússins dyr. Þetta var nokkur raun fyrir nýliðann sem aldrei hafði reykt og gat því súrnað í auga. Reykingar voru svo almennar á þessum árum að enginn gerði athugasemdir við ástandið. Þetta þótti í senn eðlilegt og sjálfsagt. Ég kom því heim á kvöldin reyktur eins og hangikjöt.
Það var skemmtilegt að vinna á Dagblaðinu. Þar var hresst fólk og keppnisandi enda aðeins veggur á milli keppinautanna tveggja í Síðumúlanum, Dagblaðsins og Vísis, Blaðsíðumúlanum sem sumir kölluðu götuna því þar voru líka Tíminn, Alþýðublaðið og Þjóðviljinn. Síðdegisblöðin tvö komu út á sama tíma, upp úr hádeginu, og því auðvelt að sjá hvort þeirra átti betra daglegt „skúbb“, uppsláttinn á forsíðunni sem var svo nauðsynlegur og nýttist blaðsölubörnunum, auk Óla blaðasala, í sitt sérstaka söngl til að laða að kaupendur. Sá sölusöngur, seiðandi sem hann var, er löngu horfinn af götum bæjarins. Allt er í heiminum hverfult. Svo var líka með sögu þessara ágætu blaða, hvort heldur var í sitt hvoru lagi eða sameinuð í DV, blaði sem átti sitt blómaskeið á níunda og tíunda áratug liðinnar aldar, uns hallaði undan fæti. En blaðið lifir enn og kemur út tvisvar í viku, á sér níu líf, eins og núverandi ritstjóri þess, Eggert Skúlason, sagði á 40 ára afmælissamkundunni. Þar voru gamlir höfðingjar heiðraðir og vel að því komnir. Dagblaðið breytti um margt íslenskri blaðamennsku, slitinn var strengur sem mátti slitna milli stjórnmálaflokka og blaða og nýjungar teknar upp, ekki síst í neytendablaðamennsku.
Í reykmettaðri minningu um hið ágæta blað var eitt eftirtektarvert þegar gamlir félagar hittust á ný, fjörutíu árum síðar. Það reykti enginn, ekki einn einasti maður.
The post Í reykmettaðri minningu appeared first on Fréttatíminn.