Staðalbúnaður
Ég tek mér tíma til að hafa mig til á morgnana en er frekar afslöppuð samt. Ég geng bara í því sem mér líður vel í og myndi ekki segja að ég sé með neinn ákveðinn fatastíl. Hérna heima versla ég sjálfsagt mest í Topshop en í útlöndum til dæmis í Weekday og Monki. Mér líður best í hælaskóm en veðrið leyfir það ekki alltaf. Þess vegna er ég oftast í Timberland-skóm á veturna.
„Pabbi er lærður kokkur þannig að ég hef takmarkaða reynslu í eldhúsinu“
Hugbúnaður
Ég hef mjög gaman af hreyfingu og útivist. Ég æfi aðallega í World Class í Laugum, hún er stór og þægileg og það er allt til alls þar. Ég er alltaf með sippuband og spinning-skó úti í bíl til öryggis. Ég hef verið á skíðum síðan ég byrjaði að labba og fer oft í skíðaferðir með fjölskyldunni. Svo finnst mér líka gaman að fara í göngutúra eða að labba Laugaveginn og fá mér kaffibolla einhvers staðar. Ef það er tilefni til kemur líka fyrir að ég kíki út að skemmta mér. Ég horfi ekki mikið á sjónvarpsþætti en það er þó gott að kíkja á eitthvað heilalaust áður en maður fer að sofa, eitthvað sem þarf ekki að fylgjast alltof mikið með.
Vélbúnaður
Ég er Apple-manneskja eins og flestir. Ég nota mikið Snapchat og Instagram en Facebook nota ég voða lítið nema fyrir chattið og grúppur í vinnunni og skólanum. Ég tala aðallega við bestu vinkonur mínar í gegnum Snapchat.
Aukabúnaður
Pabbi er lærður kokkur þannig að ég hef takmarkaða reynslu í eldhúsinu. Uppáhaldsmaturinn minn er ítalskur og ég elska brunch um helgar. Það er hefð heima hjá mér að hafa heitan kvöldmat þannig ég borða oftast heima en ef ég borða úti fer ég til dæmis á Fresco eða Nings. Ég var að koma frá því að heimsækja systur mína í Noregi um síðustu helgi og kannski fer ég í skíðaferð í vetur. Ég fór í mikið ferðalag fyrir tveimur árum, um Asíu og Bandaríkin og var mjög hrifin af. Ég elskaði bæði Taíland og Bandaríkin, fólk var svo vinalegt þar og allir svo almennilegir.
The post Alltaf með sippuband úti í bíl appeared first on Fréttatíminn.