Ætli þetta sé ekki búið núna, ég get ekki hjakkað í þessu lengur. Poppsagan er að fullu skrásett, alla vega í þessu formi,“ segir Gunnar Lárus Hjálmarsson, betur þekktur sem Dr. Gunni.
Gunni er að leggja lokahönd á tíu sjónvarpsþætti um poppsögu Íslands og fer fyrsti þátturinn í loftið á RÚV sunnudagskvöldið 27. september. Þættirnir kallast Popp- og rokksaga Íslands og verða fimm þættir sýndir nú í haust og fimm eftir áramót. Í millitíðinni verða spennuþættirnir Ófærð sýndir á sama tíma, svo það ætti ekki að væsa um landsmenn á sunnudagskvöldum í vetur.
Auðveldara og skemmtilegra að fjalla um fortíðina
Dr. Gunni hefur skapað sér nafn sem poppsagnfræðingur þjóðarinnar enda hefur hann unnið að skrásetningu poppsögunnar síðustu fimmtán árin. Og raunar mun lengur ef skrif hans í fjölmiðla eru talin með. Hann hefur skrifað tvær veglegar bækur, eina bók á ensku fyrir ferðamenn, haldið fyrirlestra, samið spurningar í Popppunkti og nú er komið að sjónvarpsþáttunum.
„Ég er búinn að skrifa tvær bækur um poppsögu Íslands, Eru ekki allir í stuði? og Stuð vors lands. Í þeirri síðari reyndi ég að súmmera upp allri poppsögu Íslands og það sama reynum við að gera í þáttunum,“ segir hann.
„Ég er reyndar farinn að hlusta á swing-tónlist og djass á 78 snúninga plötum þannig að það eru einhver ellimörk farin að gera vart við sig.“
„Það var frekar lítið í gangi fram til 1950, ekkert nema harmonikkukallar og stórhljómsveitir á hótelum. Upp úr 1950 verður til alvöru dægurtónlistarsena. Þetta fylgir allt sömu lögmálum og erlendis; það varð bylting þegar rokkið kom og eiginlega allt sem var á undan því varð gamaldags og hallærislegt í hugum ungs fólks. Þetta er oft miðað við 1955 eða 1956 þegar Elvis kom fram og Íslendingar voru vel með á nótunum þá. Og enn betur þegar Bítlaæðið byrjaði 1963. Svo fylgir íslenska poppið alltaf mikið stílum og stefnum erlendis frá.“
Hann segir að á þessari öld sé flóknara að greina stóra þræði. „Það er allt komið í einhverja kássu og voða erfitt að sjá hvað muni standa upp úr eftir fimmtíu ár. Það voru miklu skýrari línur áður fyrr.“
Vantar okkur ekki bara fjarlægðina?
„Jú, kannski. Það er voða erfitt að fjalla um samtímann í sögulegu ljósi. Það er bæði auðveldara og skemmtilegra að fjalla um fortíðina. Nútíminn er bara þoka sem maður sér ekki út úr ennþá. Þess vegna er miklu meiri áhersla lögð á fortíðina en samtímann í þessum sjónvarpsþáttum. Enda hefur samtíminn í poppi verið tekinn vel fyrir í þáttum á borð við Hljómskálann.“
Fékk Shady til að syngja inn á plötu
Þættirnir hafa verið í vinnslu í eitt og hálft ár en það var Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri Sjónvarpsins, sem átti hugmynd að gerð þeirra. Dr. Gunni vinnur þættina ásamt Erni Marinó, Þorkeli Harðarsyni og Haraldi Sigurjónssyni í kvikmyndagerðinni Markeli.
„Við höfum tekið viðtöl við hátt í 200 manns. Það er dálítið ný nálgun fyrir mig því bækurnar voru mikið byggðar á samtímaheimildum. Fólk segir alltaf eitthvað annað þegar það lítur til baka, þá kemur annar vinkill.“
Hver var skemmtilegasti viðmælandinn?
„Ha? Það var nú enginn skemmtilegri en annar en margir voru mjög skemmtilegir. Við lögðum okkur kannski mest fram til að ná Shady Owens enda þurftum við að fá hana sérstaklega til landsins. Hún var svakalega hress. Og ég fékk hana til að syngja inn á plötuna mína!“
Hvað með myndasafn RÚV, leyndust fjársjóðir þar?
„Nei, þetta er voða mikið sem hefur birst áður en við náttúrlega reyndum að finna eitthvað sem ekki hefur verið notað. Sjónvarpið var duglegt að taka upp, verst að það var miklu af því eytt. Það þurfti að spara og nota teipin aftur og aftur. Það eru til einhverjir Maður er nefndur-þættir í stað poppara að poppa.“
Ellimörk farin að gera vart við sig
Þú ert að verða fimmtugur, 7. október, og ætlar að gefa út plötu í tilefni stórafmælisins…
„Já, það var annað hvort að láta sig hverfa og vera í útlöndum eða reyna að gera eitthvað. Ég geri þetta frekar „lo fi“; gef út tíu tommu plötu og held útgáfutónleika í Lucky Records á afmælisdaginn. Maður er náttúrlega alltaf fastur í því að skila einhverju af sér í föstu formi og þess vegna gef ég formlega út plötu en þetta verða bara fimmtíu tölusett eintök. Það má líka segja að ég sé að loka ákveðnu ferli sem hófst fyrir þrjátíu árum því þetta er sama format og var á fyrstu plötunni hjá Svarthvítum draumi árið 1985.“
Hvernig er það svo að vera að verða fimmtugur?
„Það er… óumflýjanlegt. Pabbi er að verða níræður og hann er alltaf að segja að hann sé eins og tvítugur inni í sér. Það er sama hjá mér. Hylkið eldist en hugurinn er alltaf jafn ferskur. Ég er reyndar farinn að hlusta á swing-tónlist og djass á 78 snúninga plötum þannig að það eru einhver ellimörk farin að gera vart við sig.“
The post Hylkið eldist en hugurinn alltaf jafn ferskur appeared first on Fréttatíminn.