Mikil umræða hefur verið á undanförnum árum um það hversu mjög mataræði, meltingin og virkni hennar virðist hafa á heilbrigði okkar. Eitt af því sem vitað er að hafi veruleg áhrif á það hvernig við þróum með okkur sjúkdóma er svokallað bólguástand, en það er í sjálfu sér náttúrulegt viðbragð sem við þurfum til að berjast við sjúkdóma. Ónæmiskerfi okkar er öllu jöfnu svo fullkomið að það veit hvenær það á að berjast og af hvaða afli til að ráða niðurlögum árásar hverju sinni. Við þekkjum öll einkenni eins og roða, bólgu eða hita sem líkaminn framkallar með þessari virkni sinni bæði staðbundið líkt og þegar við fáum einfalda bólu og svo almennt þegar við fáum flensuna svo dæmi séu tekin um tímabundinn vanda.

Öllu flóknara ferli er það þegar við glímum við langvarandi bólguástand eins og gigtarsjúkdóma, psoriasis, ristilbólgur og ýmsa fleiri sjálfsónæmissjúkdóma. En svo virðist sem álag og undirliggjandi bólga leiði líka til hjarta og æðasjúkdóma, krabbameina og ýmis konar lífsstílssjúkdóma eins og þeir eru jafnan kallaðir, en einnig til andlegs vanda líkt og kvíða og þunglyndis. Margir vilja tengja þetta bólguástand við mataræði og samspil þess við meltingarflóru einstaklinga. Mikil rannsóknarvinna er í gangi í tengslum við þetta og óhætt að segja að ekki séu öll kurl komin til grafar ennþá. Áherslan er á einstaklinginn hérna þar sem við vitum að ekki eru allir með sömu þarmaflóru, né bregðast eins við mismunandi mataræði. Því er svo mikilvægt að geta metið hvern og einn í stað þess að gefa bara almennar leiðbeiningar. Vísindamenn við Gautaborgarháskóla og víðar eru nálægt því að gefa okkur nánari svör og verður spennandi að fylgjast með.
Svokölluð flóra einstaklings er margþætt og samanstendur af á bilinu 300-1000 tegundum baktería og er almennt stabíl hjá einstaklingum, þó getur hún raskast við ýmislegt. Má þar nefna sýklalyfjanotkun, þyngdartap eða þyngdaraukningu einstaklinga og ekki síst mataræðið sjálft sem hefur veruleg áhrif á hver samsetning þarmaflórunnar er auk fjölda annarra atriða. Hlutverkið er margþætt og við skiljum það ekki enn fullkomlega en fyrir utan það að taka þátt í „meltingunni“, niðurbroti matar og svo útskilnaði að lokum, er hún nauðsynleg til að geta tekið upp orkuefni, vítamín og steinefni. Þarmaflóran brýtur niður óæskileg efni, ver slímhúðina og hjálpar henni, heldur niðri óæskilegum vexti annarra baktería og virkar á ónæmiskerfið með beinum og óbeinum hætti auk áhrifa hennar á efnaskipti okkar.
Það er því auðvelt að ímynda sér tengsl við hina ýmsu sjúkdóma samhliða röskun á þarmaflóru og mikilvægi hennar. Mjög svo flókin ferli eru til staðar í meltingunni og snýst hún því ekki eingöngu um að geta losað sig við það sem innbyrt er heldur öllu heldur hversu gagnlegt eða skaðlegt það er sem við borðum og drekkum hverju sinni. Í stuttu máli má segja að því minna sem matur er unninn eða viðbættur sykri eða viðlíka, því hollari er hann. Því minni hiti sem notaður var við eldun hans því betra. Borða eplið í staðinn fyrir að drekka djúsinn og fá þannig trefjar og pektín með, hið sama gildir um alla ávexti og grænmeti. Umræðan um kolvetni, fitu, prótein og mismunandi matarkúra tengdum þeim er efni í annan pistil en ljóst er að sú samsetning hefur líka áhrif, en sannarlega einstaklingsbundið. Líklega er augljósast af öllu framansögðu að ekki er hægt að gefa sömu leiðbeiningar fyrir alla og vantar okkur því sárlega að geta greint þetta betur sem vonandi tekst í náinni framtíð.
Teitur Guðmundsson læknir
The post Hægðir og heilbrigði appeared first on Fréttatíminn.