Hve algengur er sjúkdómurinn?
Krabbamein í ristli (og endaþarmi) er 3ja algengasta krabbameinið sem greint er hjá Íslendingum og önnur algengasta dánarorsök af völdum krabbameina. Það greinast um 120 einstaklingar árlega með þetta krabbamein og um 50 Íslendingar deyja árlega af völdum þessa sjúkdóms.
Er mögulegt að fyrirbyggja ristilkrabbamein?
Þessari spurningu er hægt að svara játandi og ekki er deilt um það lengur. Flest þessara krabbameina hafa góðkynja forstig, sem nefnt er kirtilæxli eða ristilsepi. Um 20-25% þeirra sem eru 50 ára og eldri hafa þegar myndað þessa sepa, en ekki nema lítill hluti þeirra (4-6%) verður illkynja. Í baráttunni við þennan sjúkdóm er mikilvægt að þekkja fyrstu einkenni hans.
Eru greiningaraðferðir flóknar og hættulegar?
Þessu er hægt að svara neitandi. Megin rannsóknaraðferðirnar eru tvenns konar: leit að blóði í hægðum og ristilspeglun. Athugun á blóði í hægðum er einföld, ódýr og hættulaus rannsókn. Í nær öllum apótekum landsins er hægt að kaupa hægðaspjöld til að framkvæma þessa rannsókn. Ristilspeglun er nákvæmari, en flóknari og fyrirhafnarmeiri, en að sama skapi nákvæmari rannsókn til að greina þessi mein.
Hvert stefnir?
Flestir eru sammála um að ekki sé lengur réttlætanlegt að hika varðandi ráðleggingar um skimun fyrir þessu krabbameini. Sem stendur er fyrst og fremst deilt um „bestu“ aðferðina en því hefur verið haldið fram að besta aðferðin sé raunverulega sú sem beitt er. Landlæknisembættið hefur gefið út leiðbeiningar um skimun fyrir ristilkrabbameini hjá einkennalausu fólki á aldrinum 50-75 ára og mælir með því að leita að blóði í hægðum árlega. Jafnframt eru leiðbeiningar fyrir þá einstaklinga sem eru í meiri áhættu að fá þennan sjúkdóm. Unnt er að nálgast þessar leiðbeiningar á vefsíðu Landlæknisembættisins. Spurningin er ekki hvort, heldur hvenær skipulögð skimun verður framkvæmd í hinum ýmsu löndum. Við Íslendingar getum tekið forystu á þessum vettvangi vegna mikillar kunnáttu og reynslu af skimunaraðgerðum sem framkvæmdar hafa verið hér á landi í áratugi með einstökum árangri.
Heimild: doktor.is
The post Forvarnir gegn ristilkrabbameini appeared first on Fréttatíminn.