Norska kvennalandsliðið í knattspyrnu er eitt hið sterkasta í heimi. Þrátt fyrir það þurfa konurnar að sitja undir stöðugri gagnrýni og aðfinnslur af þeim sökum einum að þær eru konur. Þær hafa sent frá sér stórskemmtilegt myndband þar sem þær taka undir alla þá gagnrýni sem þær hafa hlotið – og viðurkenna loksins að þær eru einfaldlega ömurlegar í fótbolta.
Landsliðskonurnar Trine Rønning, Ingrid Hjelmseth, Emilie Haavi og Cathrine Dekkerhus koma fram í myndbandinu og fara hreinlega á kostum. „Við erum ömurlegar, hreint út sagt,“ segir Trine Rønning fyrirliði. Þær segjast aldrei geta spyrnt knettinum fram hjá varnarveggnum í aukaspyrnum, eiga erfitt með að skilja rangstöðuregluna og að boltinn sé allt of stór og þungur. Markvörðurinn segir að markið sé allt of stórt og það þurfi að minnsta kosti tvo markmenn til að dekka það, „kannski þrjá“.
Leikmennirnir segjast hafa sent Alþjóðaknattspyrnusambandinu lista af hugmyndum um hvernig gera megi leikinn auðveldari. Þar á meðal séu hugmyndir um minni leikvöll. „Svo við séum ekki hlaupandi út um allt eins og maurar,“ segir Rønning.
Þá segist Dekkerhus, sem hlotið hefur titilinn „fallegasta knattspyrnukona Noregs“ í fjölmiðlum þar í landi, eiga í erfiðleikum með að haldast í liði því liðsfélagar hennar verði alltaf ástfangnir af henni. „Það eru lesbíur út um allt,“ segir hún.
Myndbandið er stórskemmtileg ádeila á það hvernig umfjöllun fjölmiðla um kvenkyns íþróttamenn er stórkostlega skökk oft á tíðum en nú stendur yfir heimsmeistaramót kvenna í knattspyrnu sem fer fram í Kanada.
The post Norska kvennalandsliðið í knattspyrnu vill minni völl og léttari bolta appeared first on FRÉTTATÍMINN.