Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Pabbar skipta máli

$
0
0

Hvergi í heiminum er lengra feðraorlof en á Íslandi en það er jafnlangt í Slóveníu og Finnlandi. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um stöðu feðra í heiminum sem unnin var fyrir samtökin MenCare. Einungis fimm lönd af 169 sem skoðuð voru í skýrslunni veita lengra feðraorlof en tvær vikur, það eru Finnland, Ísland, Litháen, Portúgal og Slóvenía. Í nokkrum öðrum, svo sem Noregi er ekki gerður greinarmunur á mæðra- og feðraorlofi heldur er veitt foreldraorlof.

Í skýrslunni er fjallað um þær miklu breytingar sem hafa átt sér stað á vinnumarkaði og heimilum þar sem feður eru í auknum mæli að taka meiri ábyrgð á uppeldi barna sinna. Þrátt fyrir þessa þróun hefur löggjöfin ekki tekið breytingum í samræmi við hana, að því er fram kemur í skýrslunni og er markmið samtakanna meðal annars að benda á það í þessari fyrstu skýrslu þessa efnis.

Meðal þess sem fram kemur er að eftir því sem feður taka ríkari þátt í uppvexti barna sinna þrífast þau betur. Þátttaka feðra hefur verið tengd við betri árangur barna í skólum og bætta heilsu stúlkna og drengja svo fátt eitt sé nefnt. Áhugi feðra á uppeldi barna sinna stuðlar jafnframt að auknu jafnrétti. Rannsóknir hafa sýnt fram á að dætur karla sem taka virkan þátt í heimilisstörfum velji sér síður hefðbundin kvennastörf og fái jafnframt hærri laun. Synir sömu karla eru jafnframt líklegri til að taka þátt í heimilisstörfum þegar þeir eldast. Þá eru karlar sem taka þátt í uppeldi barna sinna að jafnaði hamingjusamari og heilbrigðari en karlar sem gera það ekki.

„Pabbar skipta máli“, er ein helsta niðurstaða skýrslunnar.

 

The post Pabbar skipta máli appeared first on FRÉTTATÍMINN.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652