Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Mikilvægt að búningurinn sé flottur á fyrsta stórmótinu

$
0
0

Keppnistreyjur og merki þeirra eru hitamál margra sem fylgjast með knattspyrnu. Íslenska landsliðið í knattspyrnu leikur í búningum frá ítalska íþróttavörurisanum ERREA og stendur sá samningur fram yfir Evrópumótið í knattspyrnu í Frakklandi á næsta ári. Í samningi KSÍ við Ítalana stendur þó að hægt sé að segja upp samningnum fyrir næstu áramót. Fréttatíminn leitaði álits hjá nokkrum sérfræðingum í bæði knattspyrnu og fatavali um það hvaða búningum strákarnir okkar eiga að klæðast.

Álitsgjafar Fréttatímans:
Guðmundur Jörundsson fatahönnuður (GJ)
Guðrún Veiga Guðmundsdóttir bloggari. (GV)
Kjartan Guðmundsson dagskrárgerðarmaður. (KG)
Eiríkur Gunnsteinsson, lögfræðingur og treyjusafnari (EG)
Álfrún Pálsdóttir, ritstjóri Glamour, (ÁP)

Skoðun álitsgjafanna á núverandi búning landsliðsins.
„Núverandi landsliðsbúningur er sannarlega betri en undanfari hans. Engu að síður er hann langt frá því að vera fallegur og mér finnst tilhugsunin um Ísland á stórmóti í fyrsta skipti í þessum búning bara frekar skammarleg. KSÍ lógóið þarfnast einnig verulega uppfærslu. Efnið í búningnum er mjög ljótt og það er vandasamt verk að blanda fallega saman bláum, rauðum og hvítum. Varabúningurinn kemur betur út finnst mér.“ (GJ)
„Æ mér finnst hann frekar blár og bragðlaus eitthvað. Ég vil sjá búninga eins og úkraníska landsliðið klæðist – fleygja okkur yfir í eitthvað gult og gleðilegt. Ókei, ég skil að búningur okkar eigi að vera fegraður fánalitum og ég tala sennilega fyrir daufum eyrum þegar ég byrja að röfla um gulan landsliðsbúning. Það má þó láta sig dreyma. Ég myndi kaupa miða á leik ef við værum í gulu. Það er eitthvað.“ (GV)
„Mér finnst liturinn flottur, skær og aðlaðandi. Hinsvegar er ég er ekki par hrifin af línunni yfir brjóstið, alger óþarfi að mínu mati. Ég mundi vilja sjá KSÍ leita á náðir íslenskra hönnuða fyrir hönnun nýs búnings, við eigum fullt af flottu fólki sem kemur til greina og kemur Gummi Jör fyrstur upp í huga enda bæði fatahönnuður og fótboltabulla. Það eru til fordæmi fyrir því að fá þekkta hönnuði til liðs við sig til að hanna íþróttafatnað, til dæmis í Bretlandi þar sem sjálf Stella McCartney sér um að hanna búninga enska landsliðsins fyrir Olympíuleikana. Mikið væri gaman að sjá þetta gert hér, og þá nýta tækifærið þegar bæði landsliðin okkar í knattspyrnu gætu verið að fara að spila fyrir hönd þjóðarinnar á EM.“ (ÁP)
„Treyjurnar sem landsliðið spilar í núna eru skárri en oft áður, enda ekki úr auðugum garði að gresja hin síðari ár, og strax bót í máli að búningarnir minni hvorki á smábarnanáttföt né misheppnaðan ofurhetjuklæðnað (eins og hinar alræmdu jöklatreyjur, vansælla minninga). Þó mætti gera mun betur. Síðustu ár og áratugi hefur borið á þeirri tilhneigingu að vera sífellt að reyna að troða rauða litnum inn í treyjurnar, og á einhverjum tímapunkti var sú ákvörðun tekin að stuttbuxurnar yrðu bláar, en það eru mistök að mínu mati. Íslenskir landsliðsbúningar eiga undantekningalaust sinn besta dag þegar þeir samanstanda af bláum treyjum og hvítum stuttbuxum. Svo þreytist ég ekki á að tala um gamla KSÍ-lógóið, sem stendur því nýja framar að öllu leyti. Einhverjir gætu freistast til að saka mig um að lifa í fortíðinni, en þá minni á að fortíðin er bara hreint ekki svo slæm tíð.“ (KG)
„Núverandi treyja liðsins er klárlega flottasta treyjan sem komið hefur frá Errea. Línurnar sem liggja yfir brjóstkassann minna á Sampdoria og það vita flestir fótboltaáhugamenn að það eru meðmæli.“ (EG)

KAPPA

1-Kappa

„Wales spilaði í svipaðri treyju fyrir EM 2008. Getur komið vel út ef lögð er áhersla á retró andann í kraganum og ermunum.“ (EG)

„Þessi treyja virðist frekar þröng og í þessum málum fer fátt meira í taugarnar á mér en níðþröngar treyjur. Bæði fara þær leikmönnum misvel og svo er fæstum stuðningsmönnum greiði gerður með því að troða þeim í svona fyrirsætuklæðnað. Slíkt getur hæglega endað með stórslysi.“ (KG)

„Of þröngur, of ljósblár, skrýtið hálsmál. Hvítur og ljósblár er væmin blanda.“ (ÁP)

„Getum við ekki skellt auglýsingu fyrir Lýsi á þennan? Og haft svona lýsisperlur út um allt? Þær eru eiginlega gular.“ (GV)

„Napoli búningurinn er fallegur í grunninn finnst mér. Þessi ljósblái litur er flottur og sniðið gott. Kappa gera flotta búninga. Auglýsingarnar skemma soldið mikið fyrir honum, það er samt eitthvað fyndið við þær.“ (GJ)

UMBRO

2 -Umbro2

„Ljótur.“ (GJ)

„Þetta er eins og fangabúningur. Ég fer bara að hugsa um handjárn og eitthvað.“ (GV)

„Þessi röndótti er eins og náttföt. Þarf ekki að segja meir um það.“ (ÁP)

„Umbro er flott merki og þetta er fín treyja sem slík, en það er eitthvað verulega asnalegt þegar svona róttækar breytingar eru gerðar á fótboltabúningum. Ísland er ekki röndótt og verður ekki.“ (KG)

„Ísland er að fara á EM 2016 en ekki í utandeildina á Englandi. Dolla dropa kraginn gerir ekkert nema að undirstrika firmamótsandann sem svífur yfir þessari.“ (EG)

UMBRO

3-Umbro

„Strax betra frá Umbro. Það væri landsliðinu sæmandi að mæta til leiks í þessari útfærslu. Myndi samt vilja sjá rauðum lit bætt við á smekklegan hátt.“ (EG)

„Þessi er betri, líka eins og það sé fallegra snið. Það er samt eitthvað skrýtið að skipta litunum svona upp, búkur – ermar.“ (ÁP)

„Hér á í raun það sama við og hina Umbro-treyjuna. Það er ekkert að þessu, en með þessum hvítu ermum væri verið að víkja um of frá hefðinni.“ (KG)

„Ljótur.“ (GJ)

LOTTO

4-Lotto

„Satanískt ljótur.“ (GJ)

„Þetta er eins og nátttreyja. Mjög leiðinleg nátttreyja.“ (GV)

„Þegar flett er upp á orðinu „leiðinlegt“ í orðabók má þar finna ítarlegar skýringar á þýðingu orðsins, dæmi um notkun þess, helstu beygingarmyndir og fleira. Þar ætti hins vegar með réttu að vera mynd af þessari treyju.“ (KG)

„Liturinn er flottur en allt hitt hörmung. Sniðið er með því óklæðilegra sem ég hef séð, vítt og skrýtið. Aftur lína yfir brjóstkassann?“ (ÁP)

„Hryllingur. Línuritið gæti verið táknmynd upprisu landsliðsins en er að öðru leyti máttlaus tilraun til að blása lífi í þennan draug.“ (EG)

New Balance.

5 NB

„Treyjan sem slík er allt í lagi en ég sé Ísland ekki fyrir mér í röndóttu.“ (EG)

„Nokkuð flott treyja (retró-töff) en röndótt, sem dæmir hana sjálfkrafa úr leik.“ (KG)

„Getum við haft mynd af Bubba þarna á hægra brjóstinu? Það væri að svínvirka.“ (GV)

„Ágætur en ekkert mikið meira en það. Þessar láréttu smáu rendur á hliðinni finnst mér ekki koma vel út.“ (GJ)

ERREA

6 Errea 2

„Það er varla hægt að hafa skoðun á þessari treyju hún er svo venjuleg.“ (GJ)

„Hvað í fjáranum er þetta Errea?“ (GV)

„Þessi treyja væri fín í ræktina, en ekki fyrir landsliðsmenn sem ætla sér stóra hluti úti á vellinum. Í rauninni yrðu þeir nánast ósýnilegir í svona búningum og það er ekki gott veganesti fyrir EM í Frakklandi.“ (KG)

„Hér erum við að tala sama tungumálið. Einfaldur og klæðilegur.“ (ÁP)

„Í raun eins líflaus og Lotto treyjan en vantar línuritið. Veit ekki hvort er að verra að reyna að skreyta dauðann með línunni eða sleppa því. Í raun er þetta táknmynd þeirrar óánægju sem hefur verið með Errea treyjurnar.“ (EG)

ERREA

7 Errea

„Þessi er líklega ljótust.“ (GJ)

„Ég endurtek: Errea?“ (GV)

„Lið sem spilar í svona treyjum er búið að tapa fyrirfram, 10-0.“ (KG)

„Mætti vera fallegra, þessar doppur eru ekki að gera neitt.“ (ÁP)

„Það gæti verið flott að setja mynstur inn í treyjuna, t.d. skjaldarmerkið sem nokkurs konar vatnsmerki. En að setja þetta tilgangslausa mynstur, sem á frekar heima á umbúðum frá þýsku lyfjafyrirtæki, er algerlega bannað.“ (EG)

JAKO

8 JAKO

„Nei, nei, nei, Ísland fer ekki í firmatreyjurnar frá Jako. Engin ástæða til að fara úr öskunni í eldinn.“ (EG)

„Nei takk. Ekki orð um það meir.“ (ÁP)

„Allt, allt of firmaboltaleg treyja. Myndi þó henta bumbuboltaliði starfsfólks Húsasmiðjunnar við Súðavog afar vel.“ (KG)

„Jako? Getum við ekki bara haldið okkur við Adidas? Nike? Eitthvað merki sem ég mögulega get borið kennsl á.“ (GV)

„Þessi búningur er mjög óspennandi eins og flest sem kemur frá JAKO.“ (GJ)

NIKE

9 Nike

„Sniðið á þessum er flottur og hálsmálið í betra lagi, þó hægt að gera töluvert betur.“ (GJ)

„Æ, þetta er eitthvað sem ég sé Gillz fyrir mér í. Ekki það að ég sé oft að sjá hann fyrir mér.“ (GV)

„Sæmilega smekkleg hönnun sem minnir þó of mikið á landsliðstreyjur Frakklands fyrir minn smekk. Svo er hún líka svo þröng að hún skilur lítið sem ekkert eftir fyrir ímyndunaraflið.“ (KG)

„Hérna erum við að tala saman. Fallegt snið og fagurblár litur. Hálsmálið er líka flott, hann er nútímalegur og mundi fara flestum vel. Þá meina ég knattspyrnumönnum, knattspyrnukonum og gallharðri stuðningsveitinni. Það má ekki gleyma þeim ört stækkandi hópi.“ (ÁP)

„Nike hafa verið áberandi í fótboltatreyjum undanfarin ár en með misjöfnum árangri. Þessi treyja er eins og hluti af hlaupafatnaði og kraginn bætir lítið úr.“ (EG)

HUMMEL

10 Hummel

„Ég er mikill Hummel maður en þessi treyja á bara heima í lyftingarsalnum eða í veggtennis.“ (EG)

„Merkið fremst pirrar mig. Sniðið er ágætt, stuttar ermar og aðsniðið en hönnunin misheppnuð. Þessi ljósblái litur á öxlunum er óþarfi.“ (ÁP)

„Einn mesti skandall íþróttasögunnar átti sér stað þegar danska landsliðið hætti að spila í Hummel-treyjum og skipti fyrir í Adidas fyrir um áratug síðan. Ég veit hins vegar ekki með þessa. Hún er dálítið leiðinleg. Skellið Hummel-röndunum niður ermarnar og þá skal ég hugsa málið.“ (KG)

„Þetta er eins og undirkjóll úr bláu silki. Nei, ég segi nei!“ (GV)

„Hef ekki skoðun á þessu.“ (GJ)

ADIDAS

11 Adidas

„Þessi búningur er fallegur, en það er auðvelt að segja það þar sem hann höfðar til fortíðarþráhyggju. En fallega einfaldur og vel heppnað hálsmál.“ (GJ)

„Minnir mig á útjaskaða Adidas-bolinn sem ég sef í. Þessi er ekki að gera neitt fyrir mig.“ (GV)

„Maður sér hreinlega fyrir sér Atla Eðvalds, Pétur Ormslev, Ragga Margeirs og fleiri hetjur spæna upp völlinn í svona búningum. Ef gamla KSÍ-lógóið yrði sett á þessa treyju í stað hins nýja og gamla Adidas-merkið líka, væri þessi treyja nálega fullkomin og varla hægt að gera betur.“ (KG)

„Eftir að hafa pælt aðeins í fótboltabúningum í gegnum tíðina hefur Adidas yfirleitt haft vinninginn. Ástæðan er líklega sú að þeir hafa náð að halda vel í klassíkina og ekki verið að reyna of mikið að finna upp hjólið. Rendurnar þrjár virka og þessi búningur er retró með V-hálsmálinu. Þessi á vinninginn að mínu mati.“ (ÁP)

„Þessi treyja er klassísk Adidas en það er samt svo margt sem gengur ekki upp. Ég myndi gjarnan vilja sjá landsliðið í flottri Adidas treyju en þessi er bara ekki flott.“ (EG)

The post Mikilvægt að búningurinn sé flottur á fyrsta stórmótinu appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652