„Í haust varð algjör sprengja í fyrirspurnum varðandi námskeiðin og ég hlakka til að komast að ástæðunni þegar ég hitti fólkið,“ segir Guðmundur Ingi Rúnarsson. „Námskeiðin eru fjölbreytt og þó svo að þau séu stíluð inn á nýbakaða foreldra er farið yfir atriði sem allir geta lært af, ungir sem aldnir, krakkar, barnapíur, foreldrar, ömmur og afar.“ Guðmundur Ingi hefur starfað sem lögreglumaður frá árinu 2002. Hann er einnig menntaður sjúkraflutningamaður og hefur starfað sem leiðbeinandi hjá Rauða krossinum í fjögur ár. „Ég hef sankað að mér ýmsum fróðleik og reynslu á þessu tímabili og nýti þá reynslu í kennslunni. Ég á sjálfur tvö börn og þekki mikið af barnafólki og vorum við sammála um að okkur fannst vanta upplýsingar fyrir foreldra varðandi hvers er að vænta í kringum börnin okkar. Ég fór því að kynna mér hvort ekki væri hægt að hitta aðra foreldra og ræða þessa hluti.“
Námsefni sniðið í takt við áhuga foreldra
Á námskeiðinu er farið yfir atriði sem snúa að öryggi barna og viðbrögðum ef eitthvað kemur fyrir. Námskeiðið er unnið í samvinnu við ljósmóður. Guðmundur leggur einnig herslu á að efni námskeiðsins sé unnið í samvinnu við þá sem sækja það. „Allt er þetta unnið í samvinnu við væntanlega nemendur og hvað þá langar að læra. Allt frá hverju þarf að huga að á fyrstu mánuðunum til almennra slysa.“

Virk samskipti og raunveruleg dæmi
„Ég hef það að markmiði í kennslunni að koma mikilvægum atriðum frá á hnitmiðaðan en skemmtilegan hátt. Það er markmiðið að allir sem ljúka námskeiði telji sig tilbúna að bregðast við og gera sitt til að bjarga lífi. Þú getur skipt máli og lagt mikið að mörkum þegar óvænt vá eða hættuástand skapast.“ Á námskeiðinu styðst Guðmundur við stutt myndskeið, fyrirlestra, verklegar æfingar, samvinnu og umræður við kennsluna. „Lögð er áhersla á að þetta séu virk samskipti leiðbeinandans og nemandans svo allir hafa gaman af. Ég vísa í raunveruleg dæmi og sögur úr starfi mínu og reyni þannig að tengja námsefnið við raunveruleikann.“ Fullt er á fjögur námskeið í september og október og hyggst Guðmundur svara þessari miklu eftirspurn og bæta við námskeiðum fram að áramótum. Á Facebook síðunni Skyndihjálp/fyrsta hjálp fyrir foreldra má nálgast frekari upplýsingar um námskeiðin sem fram undan eru.
The post Aukinn áhugi á skyndihjálp meðal nýbakaðra foreldra appeared first on Fréttatíminn.