Listmálarinn Margrét Jónsdóttir opnaði í síðustu viku, sýningu sína In Memoriam í menningarhúsinu Iðnó við Vonarstræti. Margrét er menntuð við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, með diplóma í frjálsri myndlist og síðar diplóma í grafískri hönnun. Hún stundaði mastersnám við Central Saint Martins Collage of Art í London og hefur haldið á fimmta tug einkasýninga og tekið þátt í fjölda samsýninga hér á landi og erlendis. Hún segir sýninguna byggja á hugleiðingum um list og listframleiðslu á tímum firringar, þar sem markaðshyggja er allsráðandi.
Guðrún Erla Geirsdóttir skipuleggur sýningarröðina „Argintætur í myndlist,“ í samvinnu við Gallerí Gest og Menningarhúsið Iðnó í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Sýningin á verkum Margrétar Jónsdóttur er sú fyrsta í haust, en þær sem sýna síðar eru Rúna Þorkelsdóttir, Harpa Björnsdóttir, Margrét Jónsdóttir og Guðrún Sigríður Haraldsdóttir. Listakonurnar eiga það sameiginlegt að vera fæddar í kringum miðja síðustu öld. Þær voru að stíga sín fyrstu skref í myndlistinni er önnur bylgja femínismans var farin að hafa þau áhrif að konur töldu fullvíst að þær kæmust til vegs og virðinga ekki síður en karlarnir.
„Verkin eru úr myndaröðinni IN MEMORIAM. Þau byggja á hugleiðingum um list og listframleiðslu á tímum firringar, þar sem markaðshyggja er allsráðandi. Er ég dvaldi við Cité Internationale Des Arts í París komst ég að því hverjar formæður mínar í kvenlegg voru,“ segir Margrét. „Mér finnst vel við hæfi að geta þeirra nú. Mettu Hansdóttir í Vík og Gunnhildar yngri „kóngamóður“, sem sögð var hinn mesti svarkur. Metta braut hefðir og venjur enda menntuð og úr öðru menningarsamfélagi. Þar var listakona á ferð,“ segir hún. „Hún söng og kenndi m.a. dans sem var bannað á þessum tíma. Metta var síðasti ábúandinn á landnámsjörð Ingólfs Arnarsonar. Þessar uppgötvanir opnuðu gáttir sem leiddu til þess að ég öðlast skilning á mörgu í lífi mínu og fór að vinna frönsku veggfóðursverkin út frá tilfinningum sem vöknuðu, ásamt ádeilu,“ segir Margrét.
Margrét er ein af stofnendum Gallery Suðurgötu 7 sem var mikilvæg miðstöð í þróun framlínumyndlistar á Íslandi. Einnig er hún einn af stofnendum Hagsmunafélags myndlistarmanna sem var undanfari Sambands íslenskra myndlistarmanna sem síðar leiddi að stofnun SÍM. Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur segir m.a. um verk Margrétar: „Óhætt er að segja að viðhorf Margrétar Jónsdóttur til myndlistar hafi sjaldan rúmast innan ráðandi sjónarmiða í hérlendu myndlistarumhverfi, til þess er henni einfaldlega of mikið niðri fyrir. Með tjáningu þessara viðhorfa hefur hún iðulega staðið berskjölduð og fullkomlega tillitslaus og jafnframt fullkomlega heiðarleg – gagnvart sjálfri sér og áhorfendum.“ Verk Margrétar eru í eigu Listasafn Íslands, Listasafn Reykjavíkur, Listasafn Kópavogs, Listasafn Reykjaness ásamt, mörgum opinberum stofnunum.
„Í mínum huga getur listamaður aldrei farið út í framleiðslu, það er eitthvað miklu dýpra sem verið er að fást við og því er ekki hægt að leggja listina og hönnun að jöfnu,“ segir Margrét Jónsdóttir myndlistarkona.
Sýningin var opnuð í gær, fimmtudag, en hún stendur til 22. október.
The post List á tímum firringar appeared first on Fréttatíminn.