Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Heilsusamlegt fæðumynstur dregur úr hættu á meðgöngusykursýki

$
0
0

Ellen Alma Tryggvadóttir næringarfræðingur rannsakaði áhrif mataræðis á áhættuna á meðgöngusykursýki í mastersverkefni sínu og komst að afgerandi niðurstöðu.

Það hefur lengi verið vitað að konur í ofþyngd eru í meiri hættu að fá meðgöngusykursýki,“ segir Ellen Alma Tryggvadóttir næringarfræðingur sem í mastersverkefni sínu í næringarfræði gerði rannsókn á áhrifum mataræðis á meðgöngu á áhættuna á að fá meðgöngusykursýki. „Hættan eykst aðeins um leið og þú ert komin yfir kjörþyngd og þegar þú ert komin í offitu eykst hún enn meira. Niðurstaða rannsóknar okkar Helgu Medek leiddi hins vegar í ljós að heilsusamlegt fæðumynstur dró töluvert úr hættunni.“

Mikill munur milli hópa

Rannsóknin tók til 168 barnshafandi kvenna á aldrinum 18 til 40 ára, 86 þeirra voru í kjörþyngd, 44 í yfirþyngd og 38 flokkuðust sem of feitar. Konurnar héldu matardagbók þar sem þær skráðu hvað þær borðuðu á hverjum degi. Ellen skráði síðan niðurstöðurnar inn í tölfræðimódel sem finnur fæðumynstur. „Eitt mynstur var áberandi, það sem við nefndum heilsusamlegt fæðumynstur, og þegar við skoðuðum hverjar kvennanna fylgdu því best og bárum saman við hversu margar fengu sykursýki var það áberandi að þær sem fylgdu þessu fæðumynstri fengu síður meðgöngusykursýki en hinar, óháð þyngd.“
Af þeim 168 konum sem tóku þátt í rannsókninni greindust 17 með meðgöngusykursýki, tvær þeirra voru í kjörþyngd og fimmtán yfir kjörþyngd. „Við skiptum þessum 82 konum sem voru yfir kjörþyngd niður í hópa til að athuga sérstaklega hverjar þeirra fylgdu heilsusamlega fæðumynstrinu, sem var um þriðjungur, þá sáum við að einungis ein þeirra greindist með meðgöngusykursýki,“ útskýrir Ellen. „Af hinum tveim þriðju af hópnum greindust fjórtán. Þær voru sem sagt allar yfir kjörþyngd en fylgdu mismunandi mataræði þannig að okkur fannst þetta ansi afgerandi niðurstaða.“

Aldrei áður verið hægt að benda á ákveðið mataræði

Ellen segir niðurstöðuna að vissu leyti hafa komið á óvart. „Við vorum að vonast til að sjá eitthvað í þessa áttina, en við vorum í raun ekki að leita að neinu ákveðnu mynstri, það sást bara í niðurstöðum rannsóknarinnar. Eins og staðan er í dag er engin rannsókn sem sýnir hvernig hægt væri að koma í veg fyrir meðgöngusykursýki þannig að auðvitað vorum við ánægðar með að sjá svona skýrt mynstur. Í gegnum tíðina hefur áherslan yfirleitt legið á einhverjum ákveðnum fæðutegundum og verið bent á að áhættan minnkaði ef þú drykkir minna gos eða borðaðir minna sælgæti, en það hefur aldrei áður verið hægt að benda á eitthvert ákveðið mataræði sem gæti haft jákvæð áhrif.“
Heilsusamlega fæðumynstrið samanstendur af ávöxtum, grænmeti, fiski og eggjum, meðal annars, sem kemur ekki á óvart og Ellen bendir á að þær sem hafi fylgt þessu mataræði hafi þyngst minna en hinar, sem greinilega hafi áhrif á áhættuna. „Þetta er auðvitað blanda af því að borða heilsusamlega, þyngjast ekki of mikið á meðgöngunni og hreyfa sig reglulega.“

Þarf næringarfræðinga inn í mæðraeftirlitið

Fæðuráðgjöf er ekki hluti af reglulegu mæðraeftirliti og Ellen segir það þurfa að breytast. „Það eru engir næringarfræðingar starfandi á heilsugæslunni sem ætti að vera reglan. Það þarf að leggja miklu meiri áherslu á mataræðið í mæðraeftirliti, og helst fyrr, og vonandi verður stefnan sú að næringarfræðingar komi til starfa í heilsugæslunni þannig að aðgengið verði auðveldara. Við erum að vinna í því.“
Rannsóknin var, eins og áður sagði, mastersverkefni Ellenar og spurð hvort hún hafi hugsað sér að halda áfram með verkefnið á doktorsstigi segir hún að sá draumur blundi í henni, en hún sé ekki komin svo langt að sjá hvenær það gæti orðið. „Það þarf að gera stóra íhlutandi rannsókn með samanburðarhópum og það er draumurinn, en ég veit ekki hvenær eða hvernig það verður.“

Skipting kvenna sem greindust með meðgöngusykursýki eftir þyngd:
Konur í kjörþyngd 2,3%
Konur í ofþyngd 9,1%
Konur með offitugreiningu 28,9%

 

The post Heilsusamlegt fæðumynstur dregur úr hættu á meðgöngusykursýki appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652