Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Huggulegur sunnudagur breyttist í martröð

$
0
0

22 mánaða gamall drengur var hætt kominn í nóvember í fyrra þegar hann gleypti e-töflu. Töflurnar voru í eigu vinar föður drengsins sem sagði í fyrstu að um stinningarlyf væri að ræða, en atvikið átti sér stað á heimili hans. Móðir drengsins, Ásta Þórðardóttir, tilkynnti manninn til lögreglunnar í kjölfar atviksins, sem hefur haft mikla áhrif á hana. Ásta birti færslu á Facebook í vikunni eftir að hafa lesið um nýlegt atvik þar sem barn komst í róandi lyf. Með frásögn sinni vill hún vekja aðra foreldra til umhugsunar um þær hættur sem finna má í umhverfi barna.

„Ég rak augun í grein um barn sem hafði komist í róandi lyf og það vakti upp gamlar minningar og mér leið eins og ég væri aftur komin á spítalann með drenginn minn. Þá vaknaði einnig sú hugsun hvort hægt hefði verið að koma í veg fyrir þetta tiltekna atvik ef ég hefði sagt frá minni reynslu,“ segir Ásta í samtali við Fréttatímann.

Rólegur dagur sem breyttist í martröð

Í færslunni á Facebook segir Ásta frá því þegar huggulegt sunnudagseftirmiðdegi breyttist í martröð á skammri stundu. „Sonur minn var hjá pabba sínum og átti þessi dagur að vera leti- og kósídagur.“ Ásta fékk símhringingu frá bráðamóttöku Landspítalans þar sem henni var greint frá því að sonur hennar hefði gleypt stinningarlyf, en vinur barnsföðurins sagði að um slík lyf væri að ræða. Þegar læknarnir óskuðu eftir frekari upplýsingum um lyfin hringdi faðir drengsins í vininn sem viðurkenndi þá að drengurinn hefði komist í e-töflu. „Já, hann reyndi að ljúga til um hvernig tafla þetta var,“ segir Ásta í færslu sinni. Í kjölfarið fór allt á yfirsnúning á spítalanum og gripið var til annarra ráðstafana. Þegar Ásta kom upp á spítala í mikilli geðshræringu var búið að dæla upp úr syninum en hún sat yfir honum á meðan honum voru gefin sérstök kol til að núllstilla magann. „Þegar ég kom upp á spítala var hann svartur í framan með sondu hangandi úr nefinu á sér. Barnalæknir, læknar og hjúkrunarfræðingar vöktu yfir honum og þegar mest var voru örugglega 15 manns inni í herberginu í einu.“ Ásta er afar þakklát fyrir hvernig brugðist var við atvikinu. „Það hefði allt getað farið verr, en ekkert betur. Öll viðbrögð voru hárrétt.“ Í færslu sinni segir Ásta að hún kenni barnsföður sínum ekki um. „Einnig vil ég allra síst að aðrir geri það. Hann brást hárrétt við.“

Aðstæður sem ekkert foreldri ætlar sér að lenda í

Syni Ástu var ekki meint af töflunni. „Hann sýndi hvorki merki eitrunar né áhrifa frá efninu sem hann innbyrti.“ Áður en þau fengu að fara heim af spítalanum fóru Ásta og barnsfaðir hennar í barnaverndarviðtal. „Þetta eru náttúrulega aðstæður sem ég ætlaði mér aldrei sem foreldri að lenda í. En læknarnir útskýrðu fyrir mér að þetta væri hluti af starfsreglum og ég upplifði það heldur aldrei að verið væri að dæma mig.“ Vinur föðurins var tilkynntur til lögreglunnar eftir atvikið. „Ég veit að hann fór í viðtal, en eftirmál þekki ég ekki,“ segir Ásta. Atvikið hefur haft mikið áhrif á Ástu og hefur hún margsinnis hugsað um hversu illa hefði getað farið. „Þetta atvik mun aldrei gleymast en maður lærir að lifa með því og vera þakklátur fyrir það sem maður hefur.“

The post Huggulegur sunnudagur breyttist í martröð appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652