Væntanlegt snjallforrit, Peeple hefur vakið upp mikla reiði á internetinu þar sem forritið er talið styðja við einelti og ofbeldi og þykir almennt hræðileg hugmynd. Hugmyndin er að snjallforritið virki eins og Yelp þar sem notendur veita ýmissi þjónustu gagnrýni með stjörnugjöf og athugasemdum, nema í Peeple snjallforritinu þá geta notendur gefur öllum sem þeir þekkja, allt frá vinum og vandamönnum til vinnufélaga og nágranna, eina til fimm stjörnur og skrifað ummæli um þá. Þá skiptir engu hvort þeir sem fá stjörnugjöfina séu skráðir notendur í forritinu eða ekki, það nægir að sá sem skrifar gagnrýnina hafi símanúmer viðkomandi. Um leið og nafn einhvers hefur verið skráð inn í kerfið þá er enginn leið að taka það út eða fá neikvæðri gagnrýnni um sig eytt.
Í hnotskurn segir Julia Corday, sem bjó til forritið ásamt samstarfsskonu sinni Nicole McCullough, að fólk í dag leggist í miklar rannsóknir áður en það tekur ákvarðanir um að kaupa bíla eða annað í þeim dúr, og telur það eðlilega þróun að slíkt hið sama gildi um aðra þætti í lífi okkar. Sjálf er hún tveggja barna móðir og segir að forrit eins og Peeple geti hjálpað henni að ákveða hverjum hún getur treyst fyrir börnunum sínum.
Til að skrá sig á Peeple þarf fólk að hafa Facebook aðgang og sanna að það hafi náð 21 árs aldri, auk þess sem því er skylt að tilkynna hvernig það tengist fólkinu sem það er að gagnrýna. Hugmyndin er að öll jákvæð gagnrýni sé birt samstundis en neikvæð gagnrýni bíði sjálfkrafa birtingar í 48 klukkustundir sem gefur þeim sem verður fyrir gagnrýninni tækfifæri til að verja sig.
Þegar fréttir fóru að berast af þessu forriti, sem er væntanlegt á markaðinn í lok nóvember, reis upp afar hörð og neikvæð gagnrýni. Notendur á Twitter og Facebook lágu ekki á skoðunum sínum og sáu margir þetta sem ógeðfellt tæki til að leggja fólk í einelti og beita ofbeldi. Einhver gekk svo langt að kasta fram spurningunni um hversu mörgum dauðsföllum Peeple myndi valda.
Má segja að þær Julia og Nicole fái nú að kenna á þeirri neikvæðu persónulegu gagnrýni sem þeim hefur verið bent á að snjallforrit þeirra ýti undir eins og sjá má á athugasemdum á Twitter merktum #peeple. Þær hafa brugðist ókvæða við og meðal annars ásakað einn gagnrýnenda um leggja þær í einelti og sögðu að fólk eins og hann væri ástæðan fyrir því að þær væru að búa til forritið. Til viðbótar segja þær fjölmiðla mála Peeople of dökkum litum og séu ekki að kynna sér málið nægilega vel. Þær telja sig þetta af góðum hug og minntu á að fólk sé gott í eðli sínu, auk þess sem þær vöktu athygli á jákvæðum athugasemdum frá þeim sem taka þessu snjallforriti fagnandi. Það nægði þó ekki til að lægja öldurnar og Yelp sá sig knúið til þess að birta sérstaka tilkynningu á Twitter til sverja af sér öll tengls við Peeple. Í kjölfarið virðist heimasíða Peeple, forthepeeple.com liggja niðri og öll kyningarmyndbönd um forritið á Youtube hafa líka verið fjarlægð.

Hugmyndin er ekki ný af nálinni og benda sumir á að það sé tímaspursmál hvenær einhver ríður á vaðið með snjallforrit eins og Peeple. Nú þegar má finna gagnrýni á Yelp á einstaklinga sem veita ákveðna þjónustu, til dæmis læknar, og bandaríska síðan ratemyteacher.com hefur að geyma ummæli og stjörnugjöf á framstöðu kennara frá nafnlausum nemendum. Spurningin er hvort sambærileg gagnrýni á persónuleika einstaklinga sé ekki næsta skref. Hvort sem Peeple forritið nær að verða að öflugum samfélagsmiðli eða ekki, þá hefur það að minnsta kosti kynnt hressilega undir umræðuna um siðferði á samfélagsmiðlum og internetinu og af viðbrögðum að ráða hefur ákveðin lína verið dregin í sandinn sem fæstir eru tilbúnar að stíga yfir.
The post Nýtt app þar sem vinir þínir gagnrýna þig appeared first on Fréttatíminn.