Guðrún Katrín Jóhannesdóttir rannsakar viðbrögð við nauðgunarkærum í litlum bæjarfélögum og segir þau minna á nornafár fyrr á öldum.
Að sumu leyti minna þessi viðbrögð á nornafár fyrr á öldum,“ segir Guðrún Katrín Jóhannesdóttir, sem á dögunum fékk styrk frá Menningar- og minningarsjóði kvenna til að rannsaka viðbrögð við nauðgunarkærum í litlum bæjarfélögum. „Lítil samfélög eru oft einsleitari sem felur í sér svipuð gildi og skoðanir íbúa, auk þess sem samstaða milli þeirra er mikil. Sá sem svo brýtur gegn gildum eða venjum samfélagsins uppsker harða refsingu fyrir vikið.“
Rannsóknin er mastersverkefni Guðrúnar í félagsfræði við HÍ og það sem hún er að rannsaka eru viðbrögð við tveimur nauðgunarkærum í litlum bæjarfélögum hérlendis, sem hún segir hafa haft mikil áhrif á líf stúlknanna sem kærðu. „Ég er ekki komin með endanlegar niðurstöður, en það sem ég er að sjá er að þessar stúlkur sem kærðu nauðgun upplifðu mjög neikvæð viðbrögð frá fólki úr bæjarfélaginu og það endaði með að þær fluttu báðar úr bænum, gátu ekki hugsað sér að búa þar lengur,“ segir Guðrún. „Allt í einu verður manneskjan sem kærir nauðgun að fráviki í samfélaginu, hún ruggar bátnum og fær alla upp á móti sér. Auðvitað voru einhverjir sem studdu þær en raddir þeirra sem voru á móti þeim voru mun háværari. Fólk var líka hrætt við að taka afstöðu með stúlkunum, óttaðist að lenda sjálft í mótlæti ef það gerði það.“
Ein af rannsóknarspurningum Guðrúnar í verkefninu er hvers vegna bæjarfélögin rísi ekki upp gegn þeim sem kærður er fyrir nauðgun, en það má skoða út frá nauðgunarmýtum og kenningum um feðraveldi, en fátt hafi orðið um svör. Sömuleiðis hafi fólk sem fór gegn stúlkunum átt erfitt með að útskýra hvers vegna. „Ástæðurnar sem fólk gefur eru misjafnar, sumir segjast bara hafa verið svo ungir og það hafi allir verið að tala um að þessar kærur væru lygi, fólk hafi bara trúað því. Þetta snýst ekki einu sinni um að þeir sem kærðir voru hafi verið vinsælir í bænum, fólk bara ákvað að trúa þeim frekar en stúlkunum.“
Guðrún segist finna mjög vel í viðtölum sínum við bæjarbúa um þessi mál að þau hafi valdið ákveðinni þöggun. „Það styður niðurstöðu þeirra rannsókna sem ég hef lesið og eru ein ástæðan fyrir því að ég er að skoða þetta. Það skiptir miklu máli hvaða viðbrögð fólk fær við nauðgunarkærum, því það gefur fordæmi fyrir aðra varðandi það hvort þeir vilja kæra eða ekki. Eftir að hafa horft upp á svona viðbrögð hugsar fólk sig tvisvar um áður en það kærir nauðgun.“
Spurð um ástæður þess að hún valdi þetta rannsóknarefni segist Guðrún vera utan af landi og muna eftir svona dæmum sjálf. „Svo hefur maður séð talað um þetta í fjölmiðlum, bæði hér og erlendis, en þetta hefur ekkert verið skoðað hérlendis. Fyrst var ég að hugsa um að tala bara við stúlkur sem hafa kært nauðgun í litlum bæjarfélögum, en svo ákvað ég, í samráði við leiðbeinandann minn, að tala við tvær stúlkur sem höfðu kært og einnig aðra bæjarbúa til að fá sjónarhorn á hvað bæjarbúar voru að hugsa. Mér finnst mjög áhugavert að skoða þau félagslegu öfl sem geta farið af stað þegar nauðgun er kærð.“
The post Segir viðbrögð við nauðgunarkærum minna á nornafár appeared first on Fréttatíminn.