Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Yndislegur, óþolandi og yfirgengilegur

$
0
0

Rúnar Rúnarsson kvikmyndaleikstjóri hefur verið áberandi í fréttum vikunnar eftir að kvikmynd hans Þrestir vann aðalverðlaunin á San Sebastian kvikmyndahátíðinni. Hann er ekki gefinn fyrir að tala um sjálfan sig svo við leituðum til vina hans og samstarfsfólks til að kynnast honum nánar.

Rúnar er allt í senn hlýr, umhyggjusamur, yndislegur, óþolandi og yfirgengilegur,“ segir náin vinkona og samstarfskona spurð hvað einkenni Rúnar mest. „Ég þekki fáa jafn einbeitta og ákveðna, en um leið er hann svo nærgætinn og næmur að maður getur orðið hálffeiminn.“
Allir viðmælendur eru sammála um að stærsti galli Rúnars sé um leið hans stærsti kostur. „Hans helsti ókostur er hvað hann er þrjóskur, en það getur reyndar verið kostur fyrir leikstjóra sem þarf oft að standa fast á sínu,“ segir gamall vinur úr menntaskóla og félagi Rúnars úr kvikmyndagerðinni. „Ef Rúnar bítur eitthvað í sig þá mun hann klára það, alveg sama hversu langan tíma það tekur. Það er engin leið að hagga honum, sem getur auðvitað verið algjörlega óþolandi en um leið ber maður vissa virðingu fyrir því,“ segir annar og bætir við að það sé einmitt þessi eiginleiki sem hafi skilað Rúnari eins langt og raun ber vitni.
Þrátt fyrir að vera feiminn hefur Rúnar mikla ánægju af því að umgangast fólk, að sögn vina hans, og leggur þá gjarna undir sig athyglina með því að segja sögur. „Rúnar er einn besti sögumaður sem ég þekki og þegar hann kemst í gang með sögurnar þá fær hann alla til að hlæja,“ segir fyrrnefndur menntaskólavinur. „Hann hefur gott nef fyrir sögum og karakterum, hann sér mannlífið á sinn sérstaka hátt.“ Annar kallar hann sögumann af hinum gamla íslenska skóla. „Hann lifir sig inn í sögurnar, setur þær í sinn búning, breytir röddinni eftir því hvaða karakter er að tala og bókstaflega fangar alla athygli allra sem til hans heyra.“
Öllum ber þeim saman um að Rúnar sé góður vinur og félagi sem alltaf sé hægt að leita til og hlusti á annarra vandamál. „Rúnar er góður drengur og vinur vina sinna. Hann hefur reynst mér vel á örlagastundum,“ segir einn og annar bætir um betur og segir ekki hægt að hugsa sér betri hlustanda þegar maður þurfi að létta á sér. „Það er alls ekki þannig að hann vilji alltaf vera í sviðsljósinu. Hann er mjög gjöfull á athygli sína og gefur sér alltaf tíma til að hlusta á það sem maður hefur að segja.“
„Ég þekki Rúnka vel bæði sem vin og í vinnusamhengi og á báðum sviðum vekur hann hjá mér pirring og ómælda aðdáun, aftur og aftur,“ segir fyrrnefnd vinkona. „Hann getur verið ótrúlegur sóðabósi, hann er stríðnari en andskotinn, fyndinn og fallegur. Og svo er hann bara svo sannur í öllu sem hann gerir.“
Rúnar ólst upp á Seltjarnarnesi, gekk í Valhúsaskóla og spilaði fótbolta. Ekki bar þó mikið á honum í skólanum og hann er skólasystkinum sínum úr grunnskóla ekki sérlega minnisstæður. „Hann var svo ofboðslega feiminn,“ segir gömul skólasystir. „Kannski átti hann bara eitthvað erfitt vegna feimninnar. En ég kynntist honum seinna og komst þá að því að hann er mjög uppátækjasamur og skemmtilegur.“
Á menntaskólaárunum eignaðist Rúnar tvo góða vini frá Flateyri og hefur síðan verið tíður gestur í þorpinu, þar sem kvikmyndin Þrestir var tekin upp. Þorpsbúum þótti hann dálítið skrítinn við tökurnar þar sem hann var meiddur á fæti og ók um á rafmagnshjólastól. „Ég held að margir hafi haldið hann dálítinn furðufugl, þeysandi um á spítthjólastól og gefandi skipanir í allar áttir,“ segir samstarfsmaður á Flateyri. „En furðufugl er engan veginn rétt lýsing á honum, hann er ekki einu sinni sérvitringur. Hann er bara mjög sjálfstæður og fer sínar eigin leiðir í lífinu. Þegar hann er að vinna að kvikmynd leggur hann sig allan í það verkefni og veit nákvæmlega hvaða útkomu hann vill sjá. Enda hættir hann ekki fyrr en hann nær henni og það skilar sér í allri þessari velgengni.“

The post Yndislegur, óþolandi og yfirgengilegur appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652