22% allra íslenskra mynda
Ingvar er sennilega sá íslenski leikari sem leikið hefur í flestum kvikmyndum. Svo ötull hefur hann verið að sumir hafa grínast með að ekki sé gerð mynd hér á landi án Ingvars. Það er ekki alveg rétt en því er ekki að neita að Ingvar hefur verið afar duglegur.
Hann lék í sinni fyrstu mynd, Ingaló, árið 1992 og á þeim 24 árum sem síðan eru liðin hefur hann leikið í 31 íslenskri kvikmynd. Á þeim tíma hefur verið gerð 141 kvikmynd hér á landi.

Það þýðir að Ingvar hefur leikið í 22% allra kvikmynda sem gerðar hafa hér undanfarin 24 ár. Ef tekið er tillit til þess að Ingvar er frábær leikari og velur hlutverk sín greinilega af kostgæfni gæti þetta hlutfall verið mun hærra. Það kemur nefnilega í ljós að ótrúlegustu myndir hafa verið gerðar hér á landi síðasta aldarfjórðunginn. En það er nú önnur saga.
Hófleg og hæfileg útrás
Auk þess að leika í meira en einni íslenskri kvikmynd á ári að meðaltali hefur Ingvar einnig tekið að sér hlutverk í erlendum myndum. Nú síðast Everest en einnig K-19: The Widowmaker og grínmyndinni One Night in Istanbul þar sem hann leikur Tyrkjann Altan, en myndin fjallar um sigur Liverpool í Meistaradeildinni fyrir áratug. Þá er nýbúið að frumsýna norsku myndina Dirk Ohm – Illusjonisten som forsvant sem Ingvar leikur í auk þess sem hann fer með hlutverk í síðustu mynd Sólveigar Anspach.

25 ára ferill
Þrátt fyrir mikla velgengni í kvikmyndum hefur Ingvar alltaf verið trúr leikhúsinu. Á 25 ára ferli hefur hann leikið mörg stór hlutverk í Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu auk þess sem hann var einn af stofnendum Vesturports og hefur tekið þátt í mörgum verkefnum leikhópsins. Má þar nefna Brim, Hamskiptin, Rómeó og Júlíu og Woyzeck.
Í Þjóðleikhúsinu hefur hann leikið í verkum á borð við Afmælisveisluna, Listaverkið (2011 og 1997), Íslandsklukkuna, Sólarferð og Pétur Gaut (2006 og 1991). Auk þess má nefna Öxina og jörðina, Sjálfstætt fólk, Gauragang og Tröllakirkju.
Í Borgarleikhúsinu hefur hann til dæmis leikið í Ofviðrinu, Jeppa á Fjalli og Kabarett. Þá lék Ingvar hjá Þjóðleikhúsi Frakklands í Nice hlutverk Péturs Gauts í samnefndu leikriti eftir Henrik Ibsen í leikstjórn Irinu Brook.
7 Eddur og 2 Grímur
Ingvar er vitaskuld margverðlaunaður fyrir störf sín. Hann hefur sjö sinnum hlotið Edduna og Grímuna tvisvar auk fjölda tilnefninga. Þá hlaut Ingvar Stefaníustjakann fyrir störf sín að leiklist árið 2000.
Heimildir: Kvikmyndamiðstöð Íslands, Þjóðleikhúsið, Imdb.com, Wikipedia. Við útreikning á íslenskum myndum Ingvars var stuðst við lista yfir íslenskar myndir á vef Kvikmyndamiðstöðvar en nokkrum myndum sleppt, erlendum myndum og myndum sem skörtuðu engum íslenskum leikurum.
The post Ingvar E hefur leikið í 22% íslenskra kvikmynda frá 1992 appeared first on Fréttatíminn.