Tölur um ferðamannafjöldann gefa til kynna að metafgangur af þjónustujöfnuði á þriðja ársfjórðungi sé í uppsiglingu, eins og greiningardeild Íslandsbanka bendir á, en þróunin hefur átt mikinn þátt í miklu gjaldeyrisinnflæði að undanförnu. Það hefur gert Seðlabankanum kleift að bæta gjaldeyrisforðann og gengi krónunnar hefur styrkst.
Ferðaþjónustan hefur dregið vagninn í ár líkt og undanfarin ár. Atvinnuvegurinn er sá stærsti hérlendis og hefur ekki síst staðið undir þeim efnahagsbata sem hér hefur orðið. Fyrirtæki í greininni keppa við að halda í við þróunina. Fjöldi flugfélaga flytur fólk til og frá landinu. Hótel rísa og gististöðum fjölgar um allt land. Sprenging hefur orðið í útleigu íbúða í einkaeign. Bílaleigur og hópferðafyrirtæki hafa fjölgað farartækjum og endurnýjað. Þá er aukin afþreying í boði.
Stjórnvöld hafa hins vegar verið furðu sein að bregðast við þróuninni þegar kemur að stefnumörkun þar sem hugað er að heildarsýn, stýringu, náttúruvernd samhliða nýtingu, skattlagningu eða annars konar gjaldtöku og bættri dreifingu ferðamanna um landið en fyrir liggur að ásetnustu staðirnir þola vart aukinn fjölda, að óbreyttu.
Bót var að fjárveitingu stjórnvalda fyrr á árinu til helstu ferðamannastaða en áður hafði dýrmætur tími farið til spillis þegar einblínt var á andvana fæddan náttúrupassann. Í síðustu viku var hins vegar frá því greint að sett yrði á laggirnar Stjórnstöð ferðamála sem starfa mun til ársins 2020. Sú ákvörðun var tekin í framhaldi af vinnu stýri- og verkefnahóps þar sem unnið var að gagnaöflun og staðan greind. Mikið er undir því áætlað er að gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu muni fara úr 350 milljörðum króna í ár í 620 milljarða árið 2020 og yfir 1.000 milljarða árið 2030. Vinna stýrihópsins sýndi fram á veikar undirstöður fyrir mótun framtíðarstefnu í ferðaþjónustunni. Samanburðarhæf gögn vantar, ábyrgð er víða óljós, lagaumgerðin er flókin og skipulag greinarinnar óskýrt.
Vonir standa til þess að hin nýja stjórnstöð nýti næstu fimm ár til þess að ráðast í bráðnauðsynleg verkefni. Fram hefur komið að hlutverk hennar sé að samhæfa aðgerðir og útfæra leiðir í samvinnu við stjórnsýslu, sveitarfélög, stoðkerfi greinarinnar vítt og breitt um landið, greinina sjálfa og aðra hagsmunaaðila.
Athygli vekur að sönnu nokkuð samhljóða gagnrýni frá Össuri Skarphéðinssyni, alþingismanni og fyrrum ráðherra, og Vigdísi Hauksdóttur, formanni fjárlaganefndar. Össur gagnrýndi það að komið væri á laggirnar nýrri stofnun við hlið Ferðamálastofu, að tvær ríkisstofnanir væru að sinna sama verkefni. Öll grundvallaratriðin, m.a. um gjaldtöku fyrir aðgengi, væru jafn óleyst og áður. Vigdís tók undir orð Össurar um að þetta „batterí“ ætti að þegar að vera til staðar í landinu en ef það væri ekki brúklegt eða er ekki að skila þeim árangri sem stjórnvöld vilja hefði fyrst átt að athuga með það hvort það hefði verið hægt að laga með einhverjum hætti. Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra ferðamála, svarar þessari gagnrýni með því að benda á að Stjórnstöð ferðamála sé samráðsvettvangur en ekki stofnun.
Hvernig sem á það er litið er mest um vert að skikk komist sem fyrst á mál þessarar ört vaxandi atvinnugreinar sem skiptir einstaklinga, fyrirtæki í greininni og þjóðarbúið í heild svo miklu, að staðið verði við þau markmið sem lagt er upp með, að tryggja jákvæða upplifun ferðamanna, aukna dreifingu þeirra um landið, arðsemi og jákvætt viðhorf til greinarinnar.
The post Bráðaþörf skipulagningar appeared first on Fréttatíminn.