Hlutverk hjartans er að dæla blóði sem inniheldur súrefni og næringu til vefja líkamans. Vinstri helmingur hjartans tekur við súrefnisríku blóði frá lungunum og dælir því um líkamann. Hægri helmingur hjartans fær súrefnissnautt blóð frá vefjum líkamans og dælir því til lungnanna þar sem það mettast súrefni á ný. Við hjartabilun uppfyllir dælugeta hjartans ekki þarfir líkamans. Mikilvægt er að þekkja einkenni hjartabilunar:
Einkenni vinstri hjartabilunar:
Þegar vinstri helmingur hjartans starfar ekki rétt myndast lungnabjúgur, það er vökvasöfnun í lungum. Það leiðir til andþyngsla (mæði) sem getur takmarkað getu viðkomandi til athafna daglegs lífs. Við væga hjartabilun koma andþyngslin einungis við líkamlega áreynslu en við alvarlegri hjartabilun geta komið fram andþyngsli í hvíld. Stundum fylgir langvinnur og þurr hósti.
Einkenni hægri hjartabilunar:
Þegar hægri helmingur hjartans starfar ekki rétt getur myndast bjúgsöfnun á fótum. Vegna aukins þrýstings innan frá getur myndast þurr húð á sköflungum sem hugsanlega leiðir til stífluexems þ.e. útbrot sem verða að sárum og er erfitt að græða. Hún getur einnig valdið vökvasöfnun í líffærum kviðarhols, sérstaklega lifrinni. Líffærin bólgna og kviðurinn verður þaninn. Vökvi getur safnast í kviðarholið, svokallaður skinuholsvökvi.
Heimild: doktor.is
The post Þekkir þú einkenni hjartabilunar? appeared first on Fréttatíminn.