Íslendingar eru meðal langlífustu Evrópubúa og ungbarnadauði í álfunni er hvergi minni en hérlendis. Meðalævilengd karla árið 2014 var 80,6 ár og meðalævilengd kvenna 83,6 ár á Íslandi, að því er Hagstofa Íslands greinir frá. Frá árinu 1985 hafa karlar bætt við sig rúmlega sex árum og konur rúmlega fjórum árum í meðalævilengd. Sé horft á tíu ára tímabil, 2004-2013, var meðalævi karla á Íslandi og í Sviss 79,1 ár og skipuðu þeir fyrsta sætið meðal Evrópulanda. Fast á hæla þeim komu karlar frá Svíþjóð og Liechtenstein, 78,5 ár, þá Ítalíu, 78,3 og Noregi, 77,9 ár. Stysta meðalævilengd evrópskra karla er í Eistlandi, 68,8 ár, Lettlandi, 66,4 ár og Litháen, 66,1 ár.
Á sama tíu ára tímabili, 2004-2013, var meðalævi kvenna í Frakklandi og á Spáni 84,1 ár og skipuðu þær fyrsta sætið í Evrópu. Á eftir þeim koma konur frá Sviss, 83,8 ár, Ítalíu og Liechtenstein, 83,6 og Íslandi, 82,7 ár. Meðalævilengd kvenna er styst í Búlgaríu, 76,8 ár, Makedóníu, 76,3 og Serbíu, 76,1 ár.
Meðalævilengd sýnir hve mörg æviár einstaklingur á að meðaltali ólifuð við fæðingu, ef miðað er við aldursbundna dánartíðni mannfjöldans. Aldursbundin dánartíðni hefur lækkað á undanförnum áratugum og má því vænta þess að fólk lifi að jafnaði lengur en reiknuð meðalævilengd segir til um.
Árið 2014 létust 2.049 einstaklingar sem búsettir voru á Íslandi, 1.050 karlar og 999 konur. Dánartíðni var 6,3 látnir á hverja 1.000 íbúa og ungbarnadauði 2,1 barn af hverjum 1.000 lifandi fæddum árið 2014.
Á tíu ára tímabili, 2004-2013, var meðalungbarnadauði á Íslandi 1,9 af 1.000 lifandi fæddum. Hvergi í Evrópu var ungbarnadauði jafn sjaldgæfur og hér. Meðalungbarnadauði var 2,6 í Svíþjóð og Finnlandi, 2,9 í Noregi, Slóveníu, Lúxemborg og Tékklandi. Tíðastur var ungbarnadauði í Tyrklandi, 11,6 af hverjum 1.000 lifandi fæddum.
The post Lífslíkur á Íslandi með þeim mestu í Evrópu appeared first on FRÉTTATÍMINN.