Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Hringbraut eða „besti staður“

$
0
0

Blaðaauglýsingar Samtaka um Betri spítala á betri stað hafa vakið athygli að undanförnu en þar segja nafngreindir einstaklingar, sem jafnframt kosta auglýsingarnar, að sterk rök bendi til þess að ódýrara, fljótlegra og betra verði að byggja nýjan Landspítala frá grunni á besta mögulega stað, fremur en byggja við og endurnýja gamla spítalann við Hringbraut. Skorað er á alþingi og ríkisstjórn að láta gera nýtt staðarval með opnum og faglegum hætti.

Í hópi þeirra sem senda áskorunina eru margir heilbrigðisstarfsmenn en meðal þess sem þeir telja að skoða þurfi er stofnkostnaður og rekstrarkostnaður „bútasaumaðs“ spítala annars vegar og nýs spítala á „betri stað“ hins vegar, áhrif hækkandi lóðaverðs í miðbænum, umferðarþungi og nauðsynleg umferðarmannvirki, byggingartími, ferðatími og ferðakostnaður notenda spítalans eftir staðsetningum og hversu aðgengilegir bráðaflutningar eru með sjúkrabílum og þyrlum.

Fyrir liggur þingsályktun frá því í fyrra þar sem Alþingi fól ríkisstjórninni að byggja upp spítalann við Hringbraut og eftir þeirri ályktun vinnur heilbrigðisráðherra. Ráðherrann fól fyrr á árinu Nýjum Landspítala ehf. að hefjast handa við undirbúninginn. Áskorendahópurinn sem vill mat á staðarvalinu bendir hins vegar á að margt vinnist með því að byggður verði nýr spítali á „besta mögulega“ stað. Það sé fjárhagslega hagkvæmt því selja megi núverandi eignir sem losna, þörf fyrir umferðarmannvirki verði minni og árlegur kostnaður lægri. Þá verði fljótlegra að byggja á nýju svæði. Góðir stækkunarmöguleikar séu enn fremur gríðarlega verðmætir þar sem notendum spítalans muni stórfjölga á næstu áratugum og fyrirséð að spítalinn þurfi að stækka mikið. Þó búið sé að eyða 3-4 milljörðum króna í undirbúning fyrir spítala við Hringbraut margborgi sig að byggja nýjan spítala frá grunni á besta mögulega stað og hluti undirbúningsins nýtist þar. Þeir sem vilja spítalann burt frá Hringbraut benda á að hagkvæmast sé að byggja nýjan spítala frá grunni, nálægt búsetumiðju höfuðborgarsvæðisins og nálægt stórum umferðaræðum. Svæðið kringum Vífilsstaði hefur verið nefnt í því sambandi.

Þótt fyrir liggi þingsályktun um byggingu nýs spítala við Hringbraut hefur komið fram hjá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra að til lengri tíma litið væri skynsamlegt að byggja nýjan spítala annars staðar en þar. Nýta mætti söluandvirði húsnæðis Landspítalans við Hringbraut til að reisa nýjan spítala. Mat forsætisráðherra var að fá mætti meira en 21 milljarð króna fyrir húsin.
Um staðsetninguna eru, og hafa lengi verið, skiptar skoðanir, hvort heldur er hjá almenningi eða sérfræðingum. Fram hefur komið hjá Ásdísi Hlökk Theódórsdóttur, forstjóra Skipulagsstofnunar, að staðsetning spítalans við Hringbraut falli best að aðalskipulagi Reykjavíkur og markmiðum þess um þéttingu byggðar, auk nálægðar við háskólana tvo.

Bygging nýs spítala hefur lengi verið í umræðunni enda endurnýjunar þörf. Starfsemi Landspítalans er á nærri tuttugu stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Það er óhagkvæmt rekstrarlega og óhagræði bæði fyrir sjúklinga og starfsfólk. Athyglisverð er hins vegar niðurstaða könnunar meðal 800 íslenskra lækna um staðsetningu nýs Landspítala, sem Ríkisútvarpið greindi frá í mars síðastliðnum. Þar kom fram að innan við 20% þeirra eru sáttir við að nýr spítali verði byggður á lóð þess gamla við Hringbraut. Hins vegar vilja 44% sérfræðilækna nýja spítalann ekki á þeim stað. Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri, vek að þessum niðurstöðum í pistli og sagði það vera mikið umhugsunarefni að svo lítill stuðningur væri meðal lækna við staðsetningu nýs spítala við Hringbraut. Jafnframt er augljóst, sagði hann, að við Vífilsstaði er miklu meira svigrúm til uppbyggingar spítala til lengri framtíðar. Þar vitnaði hann meðal annars í Hróðmar Helgason, sérfræðing í hjartaskurðlækningum barna, sem sagði staðsetninguna við Hringbraut í besta falli vafasama og benti á Vífilsstaði.

„Sennilega er tímabært,“ sagði Styrmir í mars síðastliðnum, „að ítarlegri umræður fari fram um staðsetningu spítalans en fram hafa farið til þessa.“

Undir það skal tekið.

The post Hringbraut eða „besti staður“ appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652