Uppistandshátíðin Reykjavík Comedy Festival fer fram um helgina í Hörpu, Háskólabíói og í Þjóðleikhúskjallaranum. Margir uppistandarar, innlendir sem erlendir, koma fram á hátíðinni sem haldin er í annað sinn. Á laugardaginn, klukkan 22.30, koma fram þeir Ben Kronberg og Dagfinn Lyngbo og mun Þórdís Nadia Semichat hita upp fyrir þá. Þórdís Nadia hefur verið mjög iðinn við uppistand að undanförnu og hlakkar mikið til kvöldsins.
„Ég er mjög spennt,“ segir hún. „Ég byrjaði í uppistandi árið 2010 og var í því í svona 2 ár og hætti í einhver þrjú ár og byrjaði svo aftur í byrjun þess árs,“ segir Nadia. „Ég hætti því ég var að byrja á sviðshöfundabrautinni í Listaháskólanum og fannst ég þurfa að taka mig alvarlega sem listamann. Svo eftir útskrift þá fattaði ég að þetta væri listform sem hentaði mér mjög vel,“ segir hún. „Ég tala um rasisma og fordóma í mínu uppistandi. Bæði mína eigin og annarra. Steríótýpur og hvað ég get verið misskilinn manneskja. Fólk bæði misskilur mig og ég misskil aðstæður líka oft,“ segir hún.
„Ég hlakka mikið til að hita upp fyrir Ben Kronberg, sem er í uppáhaldi hjá mér, og líka Dylan Moran sem er líka í uppáhaldi hjá mér. Ég ætla að reyna að sjá allt og kannski kemur einhver nýr sem maður hefur aldrei heyrt í áður. Dagskráin er mjög fjölbreytt,“ segir Nadia sem hefur verið iðinn við uppistandið og nóg er fram undan hjá henni. „Við höfum nokkur verið með mánaðarlegt uppistand á Húrra að undanförnu sem við höldum áfram, og svo er ég líka skemmta fyrir hina og þessa,“ segir Þórdís Nadia Semichat uppistandari.
The post Er oft misskilin appeared first on Fréttatíminn.