Þórdís Gísladóttir á tvær bækur í flóðinu þetta haustið, ljóðabókina Tilfinningarök og barnabókina Randalín og Mundi og afturgöngurnar. Hún er auk þess mikilvirkur þýðandi og langt komin með raunsæja unglingabók.
„Ætlarðu að spyrja mig um typpi,“ spyr Þórdís Gísladóttir þegar hún heyrir að það er blaðamaður á línunni. „Það eru typpi í bókum, Bubba, Jóns Gnarr og Hallgríms, það er það eina sem ég veit um það mál. Það eru engin typpi í mínum bókum, eða jú, það eru reyndar munnmök í Tilfinningarökum svo það er dálítið óljóst. Og ekki minnst einu orði á typpi í Randalín og Munda.“
Byrjaði sem sálmur
Með þessari opnun er Þórdís eiginlega búin að rústa byrjunarlínunni minni sem átti að snúast um það að mér fyndist ekki eins mikil kaldhæðni í Tilfinningarökum og í fyrri ljóðabókum hennar, en ég læt hana samt vaða. „Veistu, ég held það sé bara rétt hjá þér,“ segir Þórdís. „Ég skrifaði þessa bók eiginlega í einum rykk síðastliðinn vetur og ástæðan fyrir því að ég byrjaði var að ég var beðin að semja sálm fyrir Dómkirkjuna, sem síðan var frumfluttur á Menningarnótt. Ég hafði aldrei skrifað sálm og svo sem ekki velt þeim sérstaklega fyrir mér, þótt ég hafi lengi verið í kór og sungið mjög mikið af sálmum. Ég settist niður og fór að velta þessu fyrir mér og fékk ýmsar hugmyndir, meðal annars þó nokkrar sem ég vissi að ég gæti ekki notað í sálmi og þá urðu þessi ljóð til.“
Fjórtán ára og langar að vera á föstu
Þórdís segist hafa haft það bak við eyrað í töluverðan tíma að skrifa söguljóð með samhangandi sögu og látið reyna á það við skriftir þessara ljóða til að sjá hvort hún gæti það og hvernig það kæmi út. Spurð hvort það merki að hún sé á leiðinni yfir í prósa, hummar hún dálítið og vill lítið gefa upp. „Ég veit það bara ekki, það getur alveg verið,“ segir hún. „Ljóðin mín eru nú flest smáprósar svo það er ekki stórt stökk. Reyndar erum við Hildur Knútsdóttir langt komnar með raunsæja unglingabók þar sem aðalpersónurnar eru strákar og hún verður vonandi það næsta sem kemur út.“
Spurð hvort raunsæ unglingabók þýði einhvers konar áframhald á Fimmtán ára á föstu og Sextán ára í sambúð hlær Þórdís og segir að þetta sé frekar Fjórtán ára sem langar að vera á föstu.
Ekkert yfirskilvitlegt
Talandi um unglinga er stutt skref yfir í barnabækurnar en þriðja bók Þórdísar um Randalín og Munda er væntanleg hvað úr hverju. Henni hefur verið legið á hálsi fyrir að láta aðalpersónurnar framkvæma ýmsa hluti sem börn eigi ekkert að gera, eru þau skötuhjúin enn við það heygarðshornið í nýju bókinni? „Ég fékk nú ekki beint skammir, en það svelgdist sumum dálítið á við lestur fyrri bókanna, jú,“ viðurkennir hún. „Þetta eru uppátækjasamir krakkar, en þau gera ekkert af sér í þessari bók sem ekki er leiðrétt fljótlega.“ Spurð hvort afturgöngurnar í titlinum þýði að hún sé farin að skrifa um yfirskilvitlega heima harðneitar hún því. „Það er kannski leiðinlegt að ljóstra því upp, en annars vegar telja þau sig sjá afturgöngur og hins vegar fá þau hlutverk í bíómynd þar sem þau leika afturgöngur, þaðan kemur nú þessi titill.“
Nauðsynlegt að þýða
Auk þess að senda frá sér tvær frumsamdar bækur í haust er Þórdís afkastamikill þýðandi sem síðast þýddi Skuggadreng eftir Carl-Johan Vallgren sem kom út í vor, er hún með nýja þýðingu í tölvunni? „Nei, ég er í smápásu núna meðan vertíðin er að ganga yfir, en ég fer sjálfsagt eitthvað að þýða fljótlega. Mér finnst það eiginlega alveg nauðsynlegt. Ég náttúrulega byrjaði sem þýðandi og mér finnst einhvern veginn að ég þurfi að þýða til að fara í saumana á textum, pæla virkilega í tungumálinu og hvernig orðin raðast saman. Það hjálpar mér í mínum skrifum.“
Þórdís er ein þeirra ljóðskálda sem lesa upp í Ljóðapartíi á Gauknum í kvöld, föstudagskvöld 23. október, og hún segist finna fyrir miklum áhuga á ljóðum í samfélaginu. „Já, ég held það að áhugi á ljóðum sé að aukast. Ég fæ stundum símtöl og pósta frá menntaskólanemum og mömmum menntaskólanema sem segja mér að þeim hafi alltaf þótt ljóð leiðinleg en svo lesið bækurnar mínar og skipt um skoðun. Það er nú varla hægt að fá meira hrós en það.“
The post Það eru engin typpi í mínum bókum appeared first on Fréttatíminn.