Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Ceasetone til Texas

$
0
0

Það kom öllum að óvörum þegar ung íslensk hljómsveit að nafni Ceasetone var tilkynnt í fyrstu fréttatilkynningu tónlistarhátíðarinnar South by Southwest, skammstöfuð SXSW. Hátíðin er haldin í Austin í Texas í Bandaríkjunum í mars á næsta ári og hana sækja tugir þúsunda, þar af mikið af mikilvægu fólki úr tónlistarbransanum um heim allan.
Ceasetone hefur aðeins starfað sem fjögurra manna hljómsveit í stuttan tíma en á undan því hafði nafnið staðið fyrir sólóverkefni Hafsteins Þráinssonar. Hafsteinn hefur vakið mikla athygli fyrir óaðfinnanlegan gítarleik sinn og var hann til að mynda fenginn til að spila með Agent Fresco á útgáfutónleikum þeirra í Hörpu. Þetta reyndust vera ansi merkilegir tónleikar, ekki aðeins fyrir Agent Fresco, heldur einnig fyrir Hafstein og hljómsveitina hans þar sem einn skipuleggjandi frá SXSW var meðal áhorfanda og kolféll fyrir þessum unga hæfileikaríka dreng.
Hafsteinn og Sólrún Mjöll Kjartansdóttir, trommari Ceasetone, segja að spennandi tímar séu framundan. Þau eru mjög spennt fyrir því að feta í fótspor hljómsveita á borð við Of Monsters and Men, Ólafs Arnalds og nú síðast Kaleo, og spila á þessari mögnuðu hátíð. Ferðalagið verður þó ekki auðvelt þar sem þau þurfa að fylgja eftir ítarlegri kynningaráætlun til að halda í við aðrar hljómsveitir á svæðinu, en hátíðin er einnig þekkt fyrir gríðarlega mikla samkeppni.
Um þessar mundir er Ceasetone að æfa fyrir Iceland Airwaves hátíðina, þar sem þau munu spila sex sinnum, auk þess sem þau eru að undirbúa útgáfu á fyrstu breiðskífu sinni sem kemur út á næsta ári.

The post Ceasetone til Texas appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652