Bryndís Eva Jónsdóttir innanhúsarkitekt segir ekkert lát vera á vinsældum parkets sem gólfefnis inn á heimili. Úrvalið sé mikið og því að mörgu að huga. Ekki sé heldur hægt að tala um parket í dag án þess að nefna parketflísar, sem sé tilvalið efni fyrir þá sem vilja eiginleika flísa en hlýlegt útlit parkets.

– Það er mikilvægt að velja parket með efni innréttinga og hurða í huga. Þetta þarf allt að tala saman án þess þó að vera endilega úr sama efni.
– Plankaparket er mun oftar valið en stafaparket þar sem viður og litur parketsins fær frekar að njóta sín og gólfið verður „rólegra“. Það gengur líka vel við alla stíla hvort sem um ræðir rómantískan eða hreinan og allt þar á milli.
– Harðparket verður oftar fyrir valinu núna en áður enda úrval í litum og stærðum orðið gríðarlega mikið og kostir harðparkets heilla marga. Það þolir meiri ágang, er sterkt og upplitast ekki.
– Gæði parkets eru að sjálfsögðu misjöfn og hvet ég fólk til að spyrja sölumenn um mun á efnum og samskeytafrágangi borða. Þetta á við um allt parket efni; spónlagt, gegnheilt eða harðparket.
– Eikin er vinsælasti og algengasti viðurinn í gólfefnum í dag og er til í mörgum litum og áferðum. Það er gaman að sjá að fólk er óhrætt við að velja annað en hefðbundna lakkaða eik. Margt er í boði og um að gera að þora að fara út fyrir kassann. Eikargólfefni geta verið til dæmis reykt, hvíttuð, bæsuð og svo má nefna Ameríku eik, Afríku eik, antík og rústik eik.
– Í dag er ekki hægt að tala um parket án þess að nefna parketflísar, þ.e. flísar með parketútliti. Parketflísar hafa verið í boði í nokkur ár hér á Íslandi en þær eru fyrst núna að vekja eftirtekt og verða oftar fyrir valinu. Fyrir þá sem vilja eiginleika flísa en hlýlegt útlit parkets er þessi vara tilvalin.
Bryndís Eva heldur úti bloggi þar sem hægt er að fylgjast með því heitasta í innahúshönnun og einnig er hún með heimsíðu; www.bryndiseva.is
The post Gólfefnaráð frá sérfræðingi appeared first on Fréttatíminn.