Bókin hefur verið þýdd á 30 tungumál og hefur selst í yfir 1,5 milljónum eintaka. Rakel Björnsdóttir þýddi bókina á íslensku. „Bókin kom eins og himnasending til mín. Ég hafði lent í í miklum áföllum, glímt við veikindi og svo missti ég báða foreldra mína úr krabbameini með stuttu millibili. Ég var því að taka mig í gegn, andlega og líkamlega, og fannst rétt að byrja að vinna í mér innan frá.“
Það kom hins vegar upp skemmtilegur misskilningur þegar Rakel var beðin um að taka að sér verkefnið. „Þegar ég fékk símtalið frá Veröld, sem gefur bókina út, hélt ég fyrst að ég væri að fara að þýða bók um karma en ekki þarma, og fannst það bara skemmtilegt. En þegar það hafði verið leiðrétt eftir mikinn hlátur hugsaði ég með mér að ef ég hefði verið beðin að taka þetta verkefni að mér mánuði fyrr hefði ég talið það alveg galið, en þar sem ég var að taka meltinguna í gegn hjá sjálfri mér gat þetta ekki átt betur við.“

„Ég hélt fyrst að ég væri að fara að þýða bók um karma en ekki þarma, og fannst það bara skemmtilegt.“
Bókin prýddi efsta sæti metsölulista Eymundssonar í síðustu viku og segir Rakel að það hafi ekki komið á óvart. „Þetta er bók sem höfðar til allra. Öll höfum við þarma en við eigum það til að gleyma þeim. Þarmarnir segja hins vegar heilmikið um hvernig okkur líður. Eftir lestur bókarinnar losnar maður við allan tepruskap og fer að kíkja ofan í klósettið.“ Skilaboðin bókarinnar eru skýr, að mati Rakelar. „Ef við sinnum meltingarveginum af alúð uppskerum við hamingju og vellíðan. Í bókinni má finna lykilinn að hamingjuríkara og heilbrigðara lífi sem býr innra með okkur.“

Veist þú þetta um þína þarma?
Þarmarnir eru 100 sinnum stærri en húðin.
Stærsti hluti ónæmiskerfisins er í þörmunum.
100 milljarðar af bakteríum búa í þörmunum.
Þarmaflóran er samtals 2 kíló.
Þarmarnir eru annað stærsta taugakerfið á eftir heilanum.
Ef dreift er úr öllum þörmunum eru þeir yfir 7 kílómetrar að lengd.
The post Þarmarnir segja til um hvernig okkur líður appeared first on Fréttatíminn.