Páll Óskar Hjálmtýsson mun troða upp á tónlistarhátíðinni Sónar Reykjavík í febrúar á næsta ári. Páll Óskar mun koma fram á einu af stærri sviðum hátíðarinnar og mun undirbúa sérstakt show fyrir Sónar.
Forsvarsmenn Sónar Reykjavík tilkynntu í dag að nokkur nöfn hafa bæst á lista þeirra sem troða upp á hátíðinni eftir áramót. Eins og kunnugt er fer Sónar fram í Hörpu. Meðal annarra nýrra nafna eru Boys Nouse frá Þýskalandi, rapparinn Angel Haze frá Detroit í Bandaríkjunum og danska teknódrottningin Courtsey. Auk þess bætast við Ellen Allien frá Þýskalandi, Floating Points frá Bretlandi, Kiasmos dúó Ólafs Arnalds og Janus Rasmussen, President Bongo, fyrrum meðlimur GusGus, sem nýlega gaf út sína fyrstu sóló breiðskífu Serengeti, og ein skærasta stjarna íslenskrar tónlistar á erlendri grundu undanfarið ár; Bjarki.
Alls munu rúmlega 70 hljómsveitir og plötusnúðar koma fram á Sónar Reykjavík sem nú er haldin í fjórða sinn en miðasala er í fullum gangi á Tix.is.
Þegar hefur verið tilkynnt að eftirfarandi listamenn og hljómsveitir komi fram á Sónar Reykjavík 2016; Hudson Mohawke (UK), Squarepusher (UK), Holly Herndon (US), Oneothrix Point Never (US), Black Madonna (US), Rødhåd (DE), Recondite (DE), AV AV AV (DK), og íslensku sveitirnar Úlfur Úlfur, Apparat Organ Quartet, Sturla Atlas, Gangly, Vaginaboys og Skeng.
Tónlistarhátíðin Sónar Reykjavík fer fram í fjórða sinn dagana 18.-20. febrúar. Líkt og undanfarin ár mun hátíðin fara fram á fimm sviðum í Hörpu, m.a. í bílakjallara tónlistarhússins sem breytt verður í næturklúbb. Í fréttatilkynningu frá skipuleggjendum kemur fram að mikill áhugi er á hátíðinni á erlendum vettvangi enda hafi vel verið látið af viðburðinum og sérkennum hans í erlendum fjölmiðlum frá því hún var fyrst haldin árið 2013. Aldrei fyrr hafa jafn margir miðar selst á hátíðina í Bretlandi, Þýskalandi og Kanada svo löngu áður en hátíðin hefst. Uppselt hefur verið á Sónar Reykjavík síðustu tvö ár.
The post Páll Óskar treður upp á Sónar appeared first on Fréttatíminn.