Annir eru fram undan hjá tónlistarkonunni Gretu Salóme Stefánsdóttur en hún er að senda frá sér þriðja lagið á nýrri plötu sem hún hefur unnið að undanfarna mánuði. Lagið heitir Fleyið og var samið þegar hún var um boð í Disneyskipinu Disney Magic. „Lagið var samið um miðja nótt þegar ég var að vinna í stúdíóinu sem ég var með um borð og ég fékk allt í einu svo mikla heimþrá,“ segir Greta.
Hún verður heima í vetur til þess að vinna að ýmsum verkefnum. Síðustu vikur hafa farið í að syngja með hljómsveitinni Dimmu og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands í Hofi þar sem hún var einnig konsertmeistari auk þess að syngja með Dimmu í Hörpu um helgina.
Í desember ætlar hún undirbúa jólin með því að ferðast um landið og halda jólatónleika ásamt hljómsveit sinni. Hljómsveitin mun spila í kirkjum og samkomuhúsum og munu barnakórar á hverjum stað syngja með.
Gretu Salóme hefur einnig verið boðið að setja upp tónlistarsýningu í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri í janúar og leika með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands á tónleikum sem nefnast Frost. Þar mun hún leika efni sem hún hefur leikið á tónleikum hjá Disney samsteypunni.
The post Samdi lagið um borð í Disney Magic appeared first on Fréttatíminn.