Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Sjö kílómetrar þarma

$
0
0

„Það er grínlaust að vera pylsusali um þessar mundir, ef pylsurnar eru komnar í flokk með sígarettum,“ sagði mætur maður við mig nýverið. Hann átti ekki við þessa í pylsuvögnunum, heldur kjötvinnslurnar sjálfar í kjölfar þess að greint var frá úttekt Alþjóðlegu krabbameinsrannsóknarstofnunarinnar þar sem sagði að unnar kjötvörur, beikon og pylsur, væru krabbameinsvaldandi. Þessar vörur verða framvegis flokkaðar með vörum sem teljast auka líkur á krabbameini, þar á meðal tóbaki. Niðurstaða skýrslunnar er sú að 50 grömm af unnum kjötvörum á dag, tæplega tvær beikonsneiðar, auki líkur á krabbameini í ristli og endaþarmi um átján prósent. Þá sé rautt kjöt líklega einnig krabbameinsvaldandi en minni sannanir munu vera fyrir því.

Mér varð ekki um sel þegar ég las fréttina um beikonið og pylsurnar. Ekki það að ég sé regluleg pylsuæta en ég splæsi samt annað veifið í pylsupakka. Beikon er heldur ekki oft á borðum okkar hjónanna en það verð ég að viðurkenna að ég tók hraustlega á því síðastliðið vor þegar við dvöldum ytra um hálfsmánaðar skeið. Meðal þess sem borið var á morgunverðarborð á hótelinu var beikon, eins og alsiða er á slíkum stöðum. Það voru ekki tvær sneiðar á dag sem ég skóflaði í mig, ég hrúgaði brasaðri svínasíðunni á diskinn svo olía freyddi í munnvikum. Þessum ósköpum graðkaði ég í mig í tvær vikur samfleytt án þess að átta mig á því að ég væri í raun í sömu hættu og maður sem reykti tvo stóra Kúbuvindla í morgunsárið og fengi sér fílterslausa Camel sígarettu með kaffibolla í kjölfarið.

Það er vandlifað og hætturnar leynast víða. Það sé ég í hverri viku því meðal hlutverka minna í vinnunni er að lesa yfir efni sem birtist í Fréttatímanum. Þar er margt skemmtilegt, sem ekki vekur upp sérstakar áhyggjur af heilsufari, en annað þyngra. Þar á meðal eru pistlar um alls konar sjúkdóma sem hrella mannskepnuna og má þar nefna nokkra sem nýlega hafa verið til umfjöllunar í blaðinu, vefjagigt, slitgigt, liðagigt, magasár, ristilkrampa, magaverk, vindgang, of mikið eða of lítið járn, krabbamein af ýmsum toga, sykursýki, hjartasjúkdóma, lifrarskemmdir, langvinna lungnateppu, mæði, beinþynningu og hjartabilun.

Í hvert skipti sem ég les um þessi ósköp máta ég mig við lýsinguna. Þótt útlimir kunni að vera stirðir þegar ég vind mér fram úr á morgnana get ég ekki séð að ég sé með vefjagigt þótt einkenni hennar séu stoðkerfisverkir og morgunstirðleiki. Ég er venjulega orðinn nokkuð sprækur eftir morgunsturtuna þótt öngva stundi ég morgunleikfimi með Ríkisútvarpinu. Sama má segja um liðagigt en henni getur fylgt hindruð hreyfigeta. Ég kemst, sem betur fer, allra minna ferða á tveimur jafnfljótum, ef ég nenni. Ég get heldur ekki séð að ég sé með magasár en í blaðinu kom fram að ástæða væri til að leita sér lækninga ef vart yrði uppkasta, jafnvel blóðugra, seinkaðrar meltingar, kuldahrolls eða viðvarandi ógleði. Hið sama gilti um ristilkrampa sem ég las næst um. Þá hef ég enga hugmynd um það hvort ég sé með of mikið eða of lítið járn en gaf mér að járnmagnið væri í þokkalegu lagi miðað við þau einkenni sem nefnd voru fyrir karla, að eistun minnkuðu. Án þess að hafa mælt það sérstaklega taldi ég að þau mikilvægu líffæri væru svipuð að stærð og þau hafa lengst af verið.

Langvinna lungnateppu, sem er samheiti yfir lungnaþembu, langvinna berkjubólgu og reykingalungu, tók ég ekki til mín enda hef ég aldrei reykt. Þar sem ég er ekki mæðinn, að minnsta kosti ekki óeðlilega, tók ég frásagnir um hjartabilun ekki inn á mig. Hið sama átti við um frásögn af einkennum blóðleysis sem felur í sér skort á rauðum blóðkornum. Það blæðir að minnsta kosti úr fingri ef svo óheppilega vill til að ég stingi mig á títuprjóni.

Þar sem ég hef ekki farið í neina mælingu þori ég ekki að segja til um hættu á sykursýki, það er að segja þessarar áunnu. Það getur svo sem vel verið að maður sé með of hátt kólesteról eða of háan blóðþrýsting, en ég viðurkenni hvorki að vera of þungur né að eiga ættingja sem eru með sykursýki.

Við yfirlestur á grein um vindgang, þar sem prump var sett innan sviga til skýringar, kom fram að hver einstaklingur prumpar að meðaltali 14 sinnum á dag og gasar umhverfi sitt með 500 til 1500 millilítrum á sólarhring. Ekki var getið um hvernig þessar mælingar fóru fram eða hverjir fórnuðu sér í starfið, en ekki treysti ég mér til að meta að óathuguðu máli hvoru megin á millilítraskalanum ég ligg. Í greininni sagði hins vegar að magn vindgangs færi mikið eftir áti fólks en sumar fæðutegundir valda meiri vindgangi en aðrar vegna þess að hvatar í smáþörmunum ná ekki að melta þær. Bakteríur í ristlinum hafa því úr meiru að moða við loftmyndun.

Þetta er vitaskuld áhugavert og því kemur ekki á óvart að ein vinsælasta jólabókin í ár sé Þarmar með sjarma. Í kynningu með þarmabókinni, sem ég las líka fyrir birtingu í Fréttatímanum, sagði að í þörmunum væri að finna lykilinn að hamingjuríkara og heilbrigðara lífi sem byggi innra með okkur.

Það er magnað fjör í innra lífinu því í hverri mannskepnu eru 7 kílómetrar af þörmum, hvorki meira né minna. Nú veit ég ekki hvort fyrrgreindur vindgangur, eða prump, ferðast eftir öllum þessum þörmum, en sé svo er það um það bil lengd leiðarinnar frá Reykjavík til Hafnarfjarðar, kannski með smá viðrekstri í Kópavogi og Garðabæ!

The post Sjö kílómetrar þarma appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652