Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Minna ráðherra á neyð barna með geðsjúkdóma

$
0
0

Ungmennaráð UNICEF á Íslandi afhenti í gær, fimmtudag, Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra risavaxinn síma með 2.192 ósvöruðum símtölum til að minna hann á að kalli margra barna um hjálp vegna geðræns vanda væri ósvarað. 

„Viðbrögðin voru miklu sterkari en við áttum von á. Við auglýstum símanúmer sem við buðum fólki að hringja í til að sýna málefninu stuðning. Yfir 2.000 símtöl bárust og við bentum ráðherra á að allt þetta fólk hefði verið að reyna að ná í hann út af úrræðaleysi í geðheilbrigðismálum barna og unglinga,“ segir Sara Líf Sigsteinsdóttir, varaformaður ungmennaráðs UNICEF á Íslandi, en aðgerðin er liður í Heilabroti, átaki ungmennaráðs UNICEF sem fór fram á dögunum.

Mörg börn á biðlistum

„Við bentum ráðherranum á að það væri mikilvægt og verðmætt að hafa börn með í ráðum, til dæmis þegar samin væri ný geðheilbrigðisstefna eins og nú væri verið að gera. Þau hefðu aðra sýn en þeir sem eru fullorðnir,“ segir Sara Mansour, formaður ungmennaráðs UNICEF á Íslandi. Um leið og ungmennin afhentu ráðherra símann í gær áttu þau fund með honum þar sem þau kynntu Heilabrot og hvers vegna þau fóru af stað með átakið. Fram kom að biðlistar væru alltof langir og börn þyrftu að bíða lengi eftir nauðsynlegri aðstoð. Ráðherra tók ungmennaráðinu vel, sagði framtak þess frábært og að hann væri mikill stuðningsmaður þess að umræða um geðheilbrigðismál yrði opnari.

Stuttmynd sem vakti athygli

Stuttmyndin Heilabrot sem markaði upphaf átaksins vakti gríðarlega athygli en hún var öll unnin af ungmennaráði UNICEF á Íslandi, í samstarfi við unga kvikmyndagerðarmenn í Esja Production. Í myndinni fer fótbrotinn drengur í gegnum heilbrigðiskerfið eins og um barn með geðröskun væri að ræða. Hann kemur inn á bráðamóttöku og þarf á læknishjálp að halda en er sagt að koma aftur eftir nokkra mánuði. Stuttmyndin var í október sýnd í framhaldsskólum um land allt og vakti mikla athygli. Einum Facebook-pósti með stiklu úr myndinni var meðal annars deilt yfir 800 sinnum og stiklan þar spiluð 56.000 sinnum.
Í myndinni Heilabrot kemur fram að:
-18.000 íslensk börn glíma við geðrænan vanda, það eru 22% allra barna á Íslandi.
-Aðeins 20% þeirra fá hjálp við hæfi
-400 börn sem fengið hafa tilvísun bíða nú eftir þjónustu og meðferð hjá Þroska- og hegðunarstöðinni.

The post Minna ráðherra á neyð barna með geðsjúkdóma appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652