Stjórnendur Actavis tilkynntu í dag að ákveðið hafi verið að færa framleiðslu lyfjaverksmiðjunnar á Íslandi til annarra framleiðslueininga samstæðunnar. Fyrstu skref að þessum flutningum verða stigin í lok næsta árs og um mitt ár 2017 verður verksmiðjunni hér á landi lokað. Um 300 manns vinna nú við lyfjaframleiðslu hjá Actavis hér á landi.
„Önnur starfsemi á Íslandi verður óbreytt en hérlendis er fjölbreytt alþjóðleg starfsemi, m.a. á sviði lyfjaþróunar fyrir alþjóðamarkaði, skráningarsvið sem ber ábyrgð á skráningum og viðhaldi markaðsleyfa út um allan heim, alþjóðlegt gæðasvið og fjármálasvið, auk sölu- og markaðssviðs sem sinnir Íslandsmarkaði, sem og ýmis stoðsvið. Þá eru hér á landi höfuðstöðvar Medis, dótturfélags fyrirtækisins, sem selur lyf og lyfjahugvit Actavis til annarra lyfjafyrirtækja. Um það bil 300 starfsmenn eru hjá framleiðslueiningunni á Íslandi en um það bil 400 starfsmenn í öðrum einingum fyrirtækisins hér á landi,“ segir í fréttatilkynningu frá Actavis.
Actavis sameinaðist nýlega bandaríska frumlyfjafyrirtækinu Allergan og er nú eitt af tíu stærstu lyfjafyrirtækjum í heimi með starfsemi í 100 löndum og yfir 300.000 starfsmenn, að því er fram kemur í tilkynningunni.
The post Actavis flytur lyfjaframleiðslu sína úr landi appeared first on FRÉTTATÍMINN.