Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Grikkir taka Ólaf Ragnar á þetta

$
0
0

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikkja, hefur stýrt samningum grískra stjórnvalda við Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn inn í þjóðaratkvæðagreiðslu um skilyrði lánardrottna gríska ríkisins á hendur grískum almenningi. Tsipras hvetur þjóðina til að hafna skilyrðum um niðurskurð ríkisútgjalda og aukna skatta til að uppfylla skilyrði um 3,5 prósent (af landsframleiðslu) afgang af ríkisrekstri áður en kemur að vaxtagreiðslum. Með því að vísa þessu til þjóðarinnar hafnar Tsipras í raun að hann eða aðrir kjörnir fulltrúar hafi umboð til að fallast á skilyrði lánardrottna, skilyrði sem munu skerða lífskjör grísk almennings. Tsipras stillir upp þeim kröfum sem lánardrottnar setja fram í krafti eignar sinnar á skuldum gríska ríkisins á móti rétti grísku þjóðarinnar til að ráða sínum ráðum og móta samfélag sitt.

Rökin fyrir þessari ákvörðun gæti Tsipras sótt til Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, sem hefur mótað ágæt rök fyrir að vísa kröfum um ábyrgð alls almennings á skuldbindingum sem teknar voru að honum forspurðum í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Við Íslendingar vitum að Ólafur Ragnar málar skrítna mynd af leið Íslendinga út úr Hruninu og að hann sópar mörgum staðreyndum undir teppið. Íslensk stjórnvöld gengust undir kröfur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um 3,5% prósent frumjöfnuð ríkissjóðs af landsframleiðslu og skáru niður ríkisútgjöld og hækkuðu skatta að kröfu sjóðsins. Íslensk stjórnvöld gerðu það sem grísk stjórnvöld vilja ekki gera. Íslenski Seðlabankinn henti öllum sjóðum almennings á eftir bönkunum. Kostnaður íslenskra skattborgara af falli bankanna varð því álíka mikill og kostnaður skattborgara annarra landa af björgun sinna banka. Íslenskur almenningur gekkst við ábyrgð á hlutfallslega hærri skuldum sinna banka en almenningur í öðru löndum, þótt Íslendingar hafi hafnað Icesave. Icesave var aðeins brot af því sem féll á almenning. Það var gengisfall íslensku krónunnar sem kom í veg fyrir víxlverkun niðurskurðar og samdráttar á Íslandi; ekki það að almenningur hafnaði að bera ábyrgð á skuldum banka. Almenningur á Íslandi tók á sig gríðarlega kjaraskerðingu með gengisfallinu. Íslenskur almenningur borgaði allan kostnað við leið landsins út úr Hruninu og bar hlutfallslega meiri kostnað af Hruninu en nokkur önnur þjóð — nema Grikkir.

En ef við horfum fram hjá því sem Ólafur Ragnar segir ekki um Ísland þá verður að viðurkennast að rök hans fyrir að vísa kröfum alþjóðlega fjármálaheimsins um skuldbindingar almennings í þjóðaratkvæðagreiðslu eru traust og trúverðug. Þegar valið stendur á milli lögmála hins alþjóðlega fjármálaheims og lögmála lýðræðis er augljóst hvað skal velja. Ólafur Ragnar segist hafa valið lýðræðið í Icesave og Tsipras segist gera það sama nú.

Það skemmir svo ekki að Ólafur Ragnar segir að lýðræði sé það merkasta sem Evrópumenn hafi gefið heiminum, ekki alþjóðlegt fjármálakerfi. Ef það á við um Evrópu, þá á það sérstaklega við um Grikki. Ólafur Ragnar hefur flutt rök sín oft og víða en sjaldan jafn vel og í þessu viðtali við RT, Russia Today, fréttasjónvarp á ensku sem rekið er af rússneska ríkinu.

Grískur almenningur mun hafna því að gangast við kröfum lánardrottna. Það merkir að þeir sem lána þjóðum geta ekki vænst þess í framhaldinu að stjórna löndum í krafti eignarréttar síns. Þeir sem lána þjóðum verða að sætta sig við að fá borgað þegar þjóðir telja sig geta ráðið við endurgreiðslur án þess að brjóta niður samfélagsgerðina, leggja heilsu fólks í hættu, menntun barna eða lífskjör meginþorra fólks. Með allri virðingu fyrir eignarétti lánardrottnanna þá er hann ekki merkilegri en þetta. Hann á sér takmörk. Og þau takmörk liggja við sanngirnismörk þess sem hægt er að krefjast af fólki sem bar litla ábyrgð á vandanum en situr uppi með afleiðingar hans.

Og það er ágætt að þetta komist á hreint. Þjóðir þeirra ríkja sem hafa lánað Grikkjum eða tekið yfir lán einkabanka ættu einnig að læra af þessu. Eins og þeir grísku stjórnmálamenn sem tóku lánin höfðu í raun ekki óskorað umboð til þess; þannig höfðu þýskir stjórnmálamenn jafn hæpið umboð til að ráðstafa framtíðarlífskjörum sinnar þjóðar með lánveitingunum. Grikklandsmálið kallar því á heildarendurskoðun á umboði stjórnvalda til að ráðskast með framtíðarefnahag borgaranna. Borgararnir eru ekki þegnar kjörinna stjórnvalda. Stjórnvöld fara ekki með óskorað umboð borgaranna til að leggja líf þeirra í rúst.

Þetta segist Ólaf Ragnar hafa áttað sig á; að borgararnir sjálfir hafi á endanum allt um það að segja hvaða ábyrgð þeir axla á lántökum eða lánveitingum stjórnvalda. samkvæmt Ólaf Ragnari starfa stjórnvöld í takmörkuðu umboði borgaranna. Tsipras hefur áttað sig á þessu og stigið yfir línuna til Ólafs Ragnars. Angela Merkel og aðrir ráðamenn í Evrópu eru hinum megin línunnar. Þau hafa ekki enn fattað Ólaf Ragnar.

Gunnar Smári Egilsson
gunnarsmari@frettatiminn.is 

The post Grikkir taka Ólaf Ragnar á þetta appeared first on FRÉTTATÍMINN.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652