Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Glæpasagnadrottningin Yrsa á tökustað á Hesteyri

$
0
0

Tökur á kvikmyndinni Ég man þig, sem er gerð eftir samnefndri bók glæpasagnahöfundarins Yrsu Sigurðardóttur, hófust á mánudaginn á hinum afskekkta stað Hesteyri í Jökulfjörðum.
Blaðamaður á bókað flug til Ísafjarðar með Yrsu, eiginmanni hennar Ólafi Þórhallssyni og Skúla Malmquist, framleiðanda hjá Zik Zak. Þetta verður í fyrsta sinn sem Yrsa er viðstödd tökur á kvikmynd, hvað þá tökur á mynd sem er gerð eftir hennar eigin bók.

Blanda af glæpasögu og spennusögu

Ég man þig kom út árið 2010 og er ein albesta og vinsælasta bók Yrsu. Hér á Íslandi hefur hún selst í tæplega 30 þúsund eintökum og úti í heimi hefur hún komið út á yfir 20 tungumálum. Gagnrýnandi breska dagblaðsins The Independent lýsti verkinu þannig: „Bókin vekur manni hroll alveg inn að beini og hér sýnir Yrsa að hún er ekki aðeins drottning íslensku glæpasögunnar heldur er hún jafn góð og Stephen King í því að skapa óhugnað og ótta hjá lesandanum.“ Svo mörg voru þau orð.

Að sögn Yrsu er Ég man þig annars vegar glæpasaga og hins vegar spennusaga, eða draugasaga. Uppbygging þessara sagna er ólík, þar sem glæpasagan byrjar oftast á „einhverju hrikalegu“ og svo dregur úr látunum, á meðan spennusagan byrjar rólega en magnast smám saman upp í hæstu hæðir. Þegar Yrsa skrifaði bókina reyndi hún að halda spennustiginu háu allan tímann og er ekki ofsögum sagt að það hafi tekist hreint prýðilega. Bókin fjallar um þau Garðar, Líf og Katrínu sem gera upp hús á Hesteyri um miðjan vetur. Með tímanum vakna upp grunsemdir um að þau séu ekki einu gestirnir í þessu eyðiþorpi. Ungur læknir frá Ísafirði dregst á sama tíma inn í rannsókn á sjálfsmorði eldri konu.

Leikararnir í Ég man þig ásamt Óskari Þór Axelssyni leikstjóra og Yrsu Sigurðardóttur, höfundi bókarinnar sem myndin er gerð eftir. Frá vinstri eru Sara Dögg Ásgeirsdóttir, Jóhannes Haukur Jóhannesson, Þorvaldur Davíð Kristjánsson, Ágústa Eva Erlendsdóttir og Anna Gunndís Guðmundsdóttir. Ljósmynd/Eydís Björk Guðmundsdóttir
Leikararnir í Ég man þig ásamt Óskari Þór Axelssyni leikstjóra og Yrsu Sigurðardóttur, höfundi bókarinnar sem myndin er gerð eftir. Frá vinstri eru Sara Dögg Ásgeirsdóttir, Jóhannes Haukur Jóhannesson, Þorvaldur Davíð Kristjánsson, Ágústa Eva Erlendsdóttir og Anna Gunndís Guðmundsdóttir. Ljósmynd/Eydís Björk Guðmundsdóttir

Ekki hrædd við neitt

Flugið til Ísafjarðar gengur vel framan af en þegar nálgast flugvöllinn þarf að gera tvær tilraunir til aðflugs vegna mikils vinds. Vélin hossast upp og niður og blaðamanni er hætt að standa á sama. Rígheldur sér í annan sætisarminn og bölvar sjálfum sér fyrir að hafa tekið að sér þetta heldur óvenjulega verkefni, að ganga með Yrsu um Hesteyri og fylgjast með tökunum. Á sama tíma situr Ólafur, maðurinn hennar, fyrir framan mig og les blaðið í rólegheitunum og réttir Yrsu það svo í mestu látunum þegar hann er búinn að lesa. Hún setur yfirveguð á sér gleraugun, hefur lestur og kippir sér ekkert upp við hristinginn. Síðar segir hún mér að hún sé öllu vön eftir að hafa flogið margoft austur á land þar sem hún starfaði við gerð Kárahnjúkavirkjunar, en rithöfundurinn frægi starfar sem verkfræðingur í hálfu starfi.

„Ég er ekki hrædd við neitt,“ segir Yrsa þegar við sitjum saman á kaffihúsinu Bræðraborg á Ísafirði eftir flugið, spurð hvort hún sé hrædd við drauga. „En mér finnst þetta ofboðslega skemmtilegt konsept, þróun draugasagna. Þetta voru eiginlega smásögur hér áður fyrr. Draugurinn var þarna og drap þig eða hræddi þig en bar ekki neina sögu. Draugar eru þannig konsept alveg til í kringum 1960. Eftir það fer draugurinn að hafa erindi. Er kannski að reyna að fá úrlausn á gömlu óréttlæti. Þá fyrst er þetta orðið konsept sem er hægt að gera heilu bíómyndirnar með og heilu bækurnar,“ útskýrir Yrsa.

Yrsa gekk beint í flasið á tökufólki þegar hún steig á land á Hesteyri – og beint inn í töku með leikkonunni Önnu Gunndísi.
Yrsa gekk beint í flasið á tökufólki þegar hún steig á land á Hesteyri – og beint inn í töku með leikkonunni Önnu Gunndísi.

Labbaði upp í kirkjugarð

Hún segir að sögusviðið Hesteyri hafi á sínum tíma valið sig sjálft. „Við fórum þangað með vinafólki okkar til að labba. Ég var búin að eiga mér þann draum að skrifa hryllingssögu. Þá var þetta bara svo augljóst, þetta var þannig staður. Þannig að ég varð eftir og þau löbbuðu um allt á meðan ég labbaði upp í kirkjugarð.“
Yrsa segir hræðsluna við hið óþekkta vera miklu öflugri en hræðsla við, til dæmis krabbamein. „Þú getur gert hluti til að draga úr áhættunni á því en með hið óþekkta þá er alveg sama hvað þú gerir, það hefur sinn gang. Það er skemmtilegt að setja persónur í aðstæður þar sem þær geta ekkert gert og verða að sætta sig við það.“

Vildi ekki að bókin kæmi út

Þegar hún skrifaði Ég man þig átti hún ekki von á því að sá dagur rynni upp að bókin yrði kvikmynduð. „Ég var svo óánægð með hana og vildi ekki að hún kæmi einu sinni út, hvað þá að það yrði gerð bíómynd eftir henni. En þegar hún var keypt [kvikmyndarétturinn] þá gerði maður sér grein fyrir því að það gæti orðið af því. En það er ekkert öruggt í þessum bransa. Þetta er langt ferli þar sem ýmislegt getur gerst á leiðinni. Maður er löngu búinn að læra það að maður kaupir ekki frumsýningarkjólinn strax og maður er kominn með „option“ [búinn að selja kvikmyndaréttinn],“ segir hún en nokkrum sinnum hefur slíkur réttur verið keyptur af bókum hennar án þess að kvikmynd hafi orðið að veruleika.

Yrsa bætir við: „Ég held að það séu fáir sem eru að skrifa bækur sem vonast til að það verði bíómynd úr henni. Hún er svo lítill hluti af þessu og það þarf svo margt að gerast til að hún verði að veruleika. En þegar ég skrifa sé ég allt sem ég er að skrifa fyrir mér í höfðinu. Þetta er mjög myndrænt þar, þannig að ég er svo sem búin að sjá þessa mynd, eins og ég skrifaði hana,“ segir hún og brosir.

Yrsa kom til Hesteyrar ásamt eiginmanni sínum, Ólafi Þórhallssyni. Henni leist vel á stemninguna á tökustaðnum og kvaðst hlakka til að sjá myndina að ári. „Þetta verður ótrúlega flott,“ segir Yrsa.
Yrsa kom til Hesteyrar ásamt eiginmanni sínum, Ólafi Þórhallssyni. Henni leist vel á stemninguna á tökustaðnum og kvaðst hlakka til að sjá myndina að ári. „Þetta verður ótrúlega flott,“ segir Yrsa.

Afmæliskaka og eyrnatappar

Jæja, næst á dagskrá er að koma sér á Hesteyri, þar sem um 30 manna tökulið er statt án sambands við umheiminn, því hvorki net né símasamband er á staðnum. Við tökum nokkra vatnsflöskukassa með okkur og stóra súkkulaðiköku merkta Helgu Rakel Rafnsdóttur, skriftu, í tilefni 40 ára afmælis hennar. Eyrnartappar eru einnig með í poka en tökuliðið sefur nánast í einum hnappi í tveimur húsum á eyrinni, læknishúsinu svokallaða og skólahúsinu, og grunar Skúla framleiðanda af fenginni reynslu sinni úr bransanum að margir eigi erfitt með svefn vegna hrotanna í næsta manni. Vegna þess að ekkert rafmagn er á staðnum snæddi tökuliðið kvöldmatinn við kertaljós kvöldið áður, auk þess sem hver og einn geymir lítil höfuðljós við koddann, ef ske kynni að hann þyrfti að fara á klósettið í myrkrinu.

Á sjóveikitöflum í rússíbanareið

Við skellum okkur um borð í bátinn Bjarnarnes sem ætlar að ferja okkur yfir. Ferðalagið tekur um þrjú korter og minnir helst á rússíbanareið. Báturinn fylgir háum öldunum upp á við og hossast svo niður með látum, hvað eftir annað. Sem betur fer höfðum við öll tekið sjóveikitöflur á flugvellinum og því vel í stakk búinn fyrir slíka svaðilför, ólíkt aðalpersónum Ég man þig, sem sýndu ekki sömu fyrirhyggjuna á leið sinni til Hesteyrar.

Þegar við nálgumst áfangastað er akkerinu kastað skammt frá ströndinni og gúmmíbátur er settur á flot til að skila okkur síðasta spölinn. Yrsa fær það verkefni að halda á afmælistertunni á meðan blaðamaður lætur sér nægja að halda í næsta mann (Ólaf), enda óvanur því að sigla um í bátum sem þessum.

Yrsa ásamt framleiðandanum Skúla Fr. Malmquist fyrir framan læknishúsið á Hesteyri.
Yrsa ásamt framleiðandanum Skúla Fr. Malmquist fyrir framan læknishúsið á Hesteyri.

Flótti frá tökuvélinni

Þegar upp á ströndina er komið, allir hálfvotir en með tertuna í fullkomnu ásigkomulagi, er kallað á hópinn í gegnum talstöð: „Þið eruð í ramma!“ Okkur er í snarheitum gert að fela okkur úr augsýn myndatökuvélarinnar í nálægum geymsluskúr þangað til fyrirmæli um að allt sé með felldu eru gefin. Tökur á myndinni eru greinilega í fullum gangi og kemur ekki til greina að öskra „kött“, eingöngu til að taka á móti glæpasagnadrottningunni Yrsu og fylgdarliði hennar. Tíminn í þorpinu fer í að mynda Hesteyrar-kafla bókarinnar, utanhúss, og er hver mínúta nýtt til hins ítrasta á meðan bjart er úti.

Við göngum næst eftir þröngum grasstíg að læknishúsinu, sem kemur einmitt við sögu í bókinni, en þurfum að stoppa á miðri leið til að lenda ekki aftur „í ramma“. Það er verið að taka upp atriði með Önnu Gunndísi Guðmundsdóttur, sem fer með hlutverk Katrínar.

Leikarar í læknishúsi

Þegar við fáum grænt ljós göngum við að húsinu, þar sem dökkbrúnn refur nálgast okkur rólega í grasinu, greinilega ánægður að sjá ný andlit á svæðinu. Inni í húsinu tekur Ágústa Eva Erlendsdóttur, sem leikur Líf, á móti okkur með bros á vör og býður okkur velkomin. Þegar við sitjum svo inni í stofunni og bíðum eftir kaffi og samlokum frá rómuðum þýskum kokki staðarins, gengur Þorvaldur Davíð Kristjánsson, sem leikur Garðar, framhjá og heilsar upp á fólkið, kumpánlegur mjög. Það er stund á milli stríða hjá þeim Þorvaldi Davíð og Ágústu Evu, því núna er Anna Gunndís, eða Dunda, í sviðsljósinu.

23748 - tökur með önnu gunndísi

Kaldur vindur og blautur mosi

Eftir kærkominn matarbita röltum við Yrsa, Ólafur og Skúli í átt að næsta tökustað í von um að heilsa upp á leikstjórann Óskar Þór Axelsson og hans aðstoðarmenn en fyrsta kvikmynd hans í fullri lengd var Svartur á leik sem sló rækilega í gegn árið 2012. Aftur þurfum við að leita skjóls í sama, litla skúrnum til að lenda ekki „í ramma“ og í þetta sinn er biðin ívið lengri. Annað grænt ljós er gefið og við göngum áfram í köldum vindinum í gegnum blautan mosa, drullusvað og hvönn, sem hefur dreift sér allhressilega um svæðið. Glamúrinn sem margir tengja við kvikmyndatökur er víðs fjarri þessa stundina.

Sem fluga á vegg fylgjumst við með upptökum á öðru atriði með Dundu, sem horfir ákveðin í átt að myndavélinni, áður en hún gengur í burtu í gegnum hvönnina. Eftir nokkrar tökur á sama atriðinu gefur hún sér tíma til að heilsa upp á okkur, rétt eins og restin af tökuliðinu. Óskar Þór, sem skrifaði einnig handrit myndarinnar ásamt Ottó Borg, er ánægður með tökurnar til þessa en þær hófust deginum áður í báti þar sem aðalpersónurnar voru myndaðar á leið sinni á Hesteyri. Tökurnar hófust því á nákvæmlega sama stað og bókin byrjaði.

Drungalegt „lúkk“ á Hesteyri

„Við vorum að sigla í gær [á mánudag] og mynda. Það var rosaleg áskorun. Við vorum mjög heppin með veður. Það var falleg þoka á leiðinni, sem rímar vel við söguna,“ segir Óskar Þór með spennuglampa í augunum. Hann lýsir því einnig hvernig tökuliðið hjálpaðist að við að bera „brjálæðislegan helling“ af tækjum og tólum í land með því að mynda röð frá ströndinni í átt að næsta húsi. Líkast til heldur meiri burður en vatnið, súkkulaðikakan og eyrnartapparnir sem hafði komið í hlut okkar að bera.

„Núna þarf að rúlla „kamerunni“ eins og við getum til að geta náð þessu svæði vel. Það er verkefnið. „Lúkkið“ er svo gott á þessum árstíma. Það er mjög drungalegt og maður þarf ekkert að ímynda sér neitt,“ segir Óskar Þór og heldur áfram. „Það er magnað að byrja hér. Þetta gefur okkur gott start og þetta „lúkk“ hérna er algjörlega fullkomið fyrir þessar tökur.“
Núna þarf Óskar Þór að skjótast til að taka upp hjá kirkjugarðinum og við nýtum tækifærið og förum að tygja okkur heim á leið. Stutt, tæplega þriggja tíma stopp á Hesteyri er að renna sitt skeið á enda. Ekki fáum við að bragða á afmælistertunni þrátt fyrir að hafa haft hana í augsýn þetta lengi en svona er bransinn bara.

Óskar Þór Axelsson leikstjóri og Yrsa Sigurðardóttir. Ljósmynd/Eydís Björk Guðmundsdóttir
Óskar Þór Axelsson leikstjóri og Yrsa Sigurðardóttir. Ljósmynd/Eydís Björk Guðmundsdóttir

Tökurnar eins og í verkfræðinni

Ferðalagið til Reykjavíkur er mun þægilegra og gengur hreinlega eins og í sögu. Blaðamaður króar Yrsu af á Reykjavíkurflugvelli og spyr hvað henni hafi fundist um tökurnar. „Þetta er í fyrsta skipti á ævinni sem ég hef séð nokkuð þessu líkt. Það kom mér á óvart hversu ofboðslega mikil fyrirhöfn þetta er. Þetta eru ekki bara einhverjir að leika og maður með myndavél og svo einhver hljóðmaður. Þetta er eins og maður þekkir úr verkfræðinni, búið að skipuleggja allt fram og til baka. Nema að þarna hafa menn áhuga á mínútum og sekúndum á meðan mín vinna snýst um daga og mánuði. Mér fannst þetta virkilega gaman og ég hef ofurtrú á þessu. Þetta verður ótrúlega flott.“

23748 allir með framleiðanda

Hugar að frumsýningarkjólnum

Tökum á Ég man þig lýkur næsta vor en þær fara einnig fram á Ísafirði og í Grindavík. Fjárhagsáætlun myndarinnar hljóðar upp á 250 til 300 milljónir króna og er þetta dýrasta mynd Zik Zak til þessa, ásamt The Good Heart. Frumsýning er fyrirhuguð um jólin 2016. „Ég hélt að hún væri frumsýnd í desember 2017 en að þetta sé að gerast núna eftir eitt ár er allt annað. Núna getur maður raunverulega farið að hlakka til því ég hef ekki þolinmæði í að hlakka til einhvers sem gerist eftir tvö ár,“ segir Yrsa, sem getur loksins farið að huga að frumsýningarkjólnum sínum.

Freyr Bjarnason
ritstjorn@frettatiminn.is

The post Glæpasagnadrottningin Yrsa á tökustað á Hesteyri appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652