„Þetta er spennusaga svo þú mátt alls ekki láta mig segja of mikið,“ segir Hildur Knútsdóttir beðin um að lýsa bók sinni Vetrarfríi í stuttu máli. „Hún fjallar um systkini sem neyðast til að fara með pabba sínum í sumarbústað í vetrarfríi í skólanum. Þau eru ekki mjög ánægð með það, sérstaklega ekki Bergljót, sú eldri, sem er fimmtán ára. Hún hafði nefnilega ætlað í partí og reyna að hösla strákinn sem hún er skotin í. Á meðan þau eru í bústaðnum brýst út skrýtin plága; fullt af fólki deyr og virðist svo vera étið. Kemur í ljós að mannætuskrímsli hafa lent á Íslandi og eru í óða önn að éta þjóðina. Eina vonin um að lifa af er því að bjarga sér á flótta og það þurfa systkinin að gera.“
Hildur upplýsir að Vetrarfrí sé fyrri bókin í tvíleik, þannig að eitthvað af persónunum lifir greinilega af, en hún segir jafnframt að það megi ekki upplýsa hverjar það eru. Bókin hefur verið sögð sú blóðugasta sem skrifuð hefur verið á íslensku og Hildur segir það vel geta verið satt. „Þetta er hryllingssaga, mjög stór hluti þjóðarinnar er étinn í bókinni og ég man ekki eftir annarri íslenskri bók þar sem slíkt gerist. Það eru samt engar grafískar lýsingar á mannáti í henni, meira bara ummerki um mannát; blóð og kjöttægjur í snjónum, kannski einn fótur hér eða handleggur þar. Kannski er hún dálítið ógeðsleg, ég veit það ekki, en hafa börn og unglingar ekki gaman af því að láta hræða sig? Gömlu ævintýrin eru nú ekkert laus við ofbeldi.“
Ertu mikill hryllingssagnaaðdáandi? „Já, ég er það. Hef gaman af að horfa á hryllingsmyndir og lesa hryllingssögur. Það hefur reyndar minnkað aðeins eftir að ég átti börn, það er eins og hjartað hafi minnkað við það, þannig að kannski hefur maður einmitt meira þol fyrir hryllingi þegar maður er yngri.“
Fyrsta bók Hildar, Sláttur, var markaðssett sem skáldsaga fyrir fullorðna en þessi og Spádómurinn sem kom út 2012 eru flokkaðar sem unglingabækur, var einhver ástæða fyrir því að hún hóf að skrifa fyrir unglinga? „Nei, það var ekkert meðvitað, ég skrifa bara bækur sem mig langar sjálfa að lesa,“ segir hún. „Kannski er Sláttur líka unglingabók, allavega hef ég fengið mikið af skilaboðum frá unglingum sem hafa lesið hana og líkað vel. Ég held reyndar að bækur séu bara flokkaðar sem unglingabækur ef aðalsögupersónurnar eru unglingar. Sennilega yrðu Bjargvætturinn í grasinu og To kill a Mockingbird flokkaðar sem unglingabækur ef þær kæmu út í dag og myndu aldrei rata inn í kanónuna. Þannig að þessi flokkun er dálítið hæpin. Fólk er svo mismunandi, hvort sem það er börn, unglingar eða fullorðnir, og smekkur á bókmenntum fer ekkert eftir aldri.“
The post Mannætuskrímsli í Reykjavík appeared first on Fréttatíminn.